Bjarnheiður Hallsdóttir Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar Eftir tvö mögur ár, í skugga heimsfaraldurs, er ferðaþjónusta á Íslandi að nálgast sinn fyrri styrk sem öflugasta útflutningsgrein okkar Íslendinga

Bjarnheiður Hallsdóttir
Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar

Eftir tvö mögur ár, í skugga heimsfaraldurs, er ferðaþjónusta á Íslandi að nálgast sinn fyrri styrk sem öflugasta útflutningsgrein okkar Íslendinga. Viðspyrna greinarinnar hefur verið ævintýri líkust og hraðari en nokkur þorði að vona. Þessi ánægjulegi viðsnúningur er gríðarlegt hagsmunamál fyrir alla Íslendinga – enda hafa mismunandi sviðsmyndir hvað varðar endurkomu erlendra ferðamanna verið mikilvægasta breytan í flestum hagspám sem gerðar voru fyrir árið sem er að líða. Líklegt er að endanleg niðurstaða verði betri en björtustu spár.

Það er merkilegt að Íslandi virðist vera að ganga einna best í endurreisn ferðaþjónustu á heimsvísu – áfangastaðurinn Ísland kemur sterkar til baka en Evrópa í heild (mælt í komum erlendra ferðamanna, UNWTO) og miklu sterkar en flestir áfangastaðir annars staðar í heiminum. Reiknað er með að við náum á þessu ári 85-90% af þeim fjölda sem kom til landsins árið 2019 og að útflutningstekjurnar verði um 95% af tekjum þess árs. Það er frábær árangur og ómögulegt að alhæfa um hvað veldur.

Bókunarstaða fyrir næsta ár lofar mjög góðu. Þó ber að hafa í huga að stór hluti ferðaþjónustu fer fyrst upp í hillu hjá endursöluaðilum erlendis áður en neytendur kaupa hinar ýmsu útfærslur hennar. Það er hins vegar gott merki að endursöluaðilar hafi trú á Íslandi og vilji tryggja sér þjónustu fyrir sína viðskiptavini. Þá er nauðsynlegt að hafa bak við eyrað viðsjárverða stöðu í Evrópu – stríðsrekstur, orkukrísu og óvenjulega háa verðbólgu, sem vissulega gæti haft áhrif á eftirspurn. Ef faraldurinn hefur kennt okkur eitthvað, þá er það að fagna ekki of snemma!

Um áramót er okkur gjarnt að líta um öxl og hugsa fram á veginn á sama tíma. Ferðaþjónusta á Íslandi stendur á enn einum krossgötunum og þarf nú að horfa fram á veginn og taka markviss skref við að þróa greinina í þá átt sem við viljum beina henni. Það bíða okkar alls kyns miserfið álitaefni og verkefni. Á nýju ári verður aðgerðaáætlun fyrir ferðaþjónustu kláruð á vegum ferðamálaráðuneytisins. Við bindum miklar vonir við þá vinnu og þar mun vonandi liggja fyrir hvert við stefnum og hvernig við ætlum að ná markmiðum okkar – þar sem yfirmarkmiðið er að ferðaþjónusta skapi áfram gríðarleg verðmæti fyrir þjóðarbúið.