Heiðrún Lind Marteinsdóttir Framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi Á níunda áratug síðustu aldar var orðið ljóst að Íslendingar voru í miklum vanda með fiskveiðarnar. Ofveiðin var farin að ganga verulega á okkar helstu fiskistofna og…

Heiðrún Lind Marteinsdóttir
Framkvæmdastjóri Samtaka
fyrirtækja í sjávarútvegi

Á níunda áratug síðustu aldar var orðið ljóst að Íslendingar voru í miklum vanda með fiskveiðarnar. Ofveiðin var farin að ganga verulega á okkar helstu fiskistofna og ríkið hafði enga burði til að verja frekari fjármunum til að halda ósjálfbærum veiðum og fyrirtækjum gangandi. Það þurfti að hverfa af þessari braut og ljóst var að sú vegferð yrði erfið, en til lengri tíma yrði hinn þjóðhagslegi ábati meiri. Fiskveiðistjórnunarkerfinu var formlega komið á – í frumstæðri mynd þó, þar sem markmiðið var skýrt; það átti að ná hámarksafrakstri nytjastofna til lengri tíma og með hagkvæmum hætti.

Víðtæk samstaða var um þetta markmið og í grunninn eru það ekki margir þættir sem stuðla að því að þessu markmiði verði náð. Leiðin felst í fjórum þáttum: auknu magni, meiri gæðum, betri nýtingu og samkeppnishæfum rekstrarskilyrðum. Það þarf gott og mikið samstarf stjórnvalda og atvinnugreinar til þess að markmiði verði náð. Þá er ekki síður mikilvægt að allir skilji vegferðina.

Íslendingar hafa gert ótrúleg verðmæti úr sjávarauðlindinni. Alþjóðleg samkeppni er hins vegar hörð og því má aldrei slá slöku við. Það þarf að finna leiðir til að gera afurðina verðmætari í dag en í gær. Við þurfum að hafa sameiginlega sýn á það hvert við stefnum inn í lengri framtíð. Hvað á sjávarauðlindin að leggja til hagsældar og áframhaldandi góðra lífskjara hér á landi á næstu 10 eða 20 árum? Þetta er stóra verkefnið.

Matvælaráðherra hefur ýtt úr vör metnaðarfullu verkefni um mótun sjávarútvegsstefnu. Ég er bjartsýn, en um leið raunsæ um afraksturinn. Íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið er ekki fullkomið. Það þarf að skerpa á áðurgreindum leiðum að markmiðinu og ég vona að vel takist til í því. Nýting náttúruauðlinda er hins vegar pólitískt mál og því miður hefur umræða á vettvangi samráðshóps um þessa mikilvægu stefnumótun að meginstefnu til snúist um hin pólitísku þrætuepli og frávik frá markmiðinu. Áhersla margra virðist vera á það að draga úr verðmætasköpun. Það er áhyggjuefni, ekki bara fyrir sjávarútveg heldur fyrir þjóðarhag.

Íslenskt efnahagslíf þarf á því að halda að árið framundan verði gjöfult í sjávarútvegi, svo verðbólga og háir vextir verði ekki viðvarandi mein. Ég efa ekki að áðurgreind vinna við sjávarútvegsstefnu dýpki skilning á þessu mikilvægi sjávarútvegs í gangverki efnahagslífsins.