Gert er ráð fyrir bættum hag í rekstri sjö stærstu sveitarfélaga landsins á næsta ári. „Engu að síður benda fjárhagsáætlanir þessara sjö stærstu sveitarfélaga landsins til þess að halli verði á rekstri sveitarfélaga á næsta ári sem yrði þar með fjórða árið í röð með halla

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Gert er ráð fyrir bættum hag í rekstri sjö stærstu sveitarfélaga landsins á næsta ári. „Engu að síður benda fjárhagsáætlanir þessara sjö stærstu sveitarfélaga landsins til þess að halli verði á rekstri sveitarfélaga á næsta ári sem yrði þar með fjórða árið í röð með halla. Er það einsdæmi í sögunni.“ Þetta kemur fram á minnisblaði sviðsstjóra hag- og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga um fjárhagsáætlanir stærstu sveitarfélaganna fyrir árið 2023, sem lagt var fram á fundi stjórnar sambandsins um miðjan desember.

Útkomuspár fyrir yfirstandandi ár benda til að halli verði á rekstri A-hluta sveitarfélaganna sjö upp á um 15,5 milljarða í ár. Það eru 4,9% af tekjum og skiptir tæplega 15,3 milljarða kr. hallinn hjá Reykjavíkurborg sköpum en rekstrarafgangur hinna sveitarfélaganna er neikvæður um 217 milljónir kr. á árinu. Í þessum sveitarfélögum búa nær þrír af hverjum fjórum íbúum landsins en umsvif Reykjavíkurborgar skera sig vitaskuld úr og eru tekjur borgarinnar t.a.m. meiri en hinna sex sveitarfélaganna til samans.

Útkomuspá Reykjavíkurborgar sýnir jafnframt að veltufé frá rekstri var neikvætt á þessu ári um 2,7% af tekjum en hin sveitarfélögin öfluðu veltufjár úr rekstrinum sem nam 8% af tekjum.

Á næsta ári er gert ráð fyrir að rekstur A-hlutans hjá borginni verði neikvæður um tæpa sex milljarða og lækki úr 10% af tekjum í 3,6% og jafnframt að veltufé fáist úr rekstri sem nemur 2,2% af tekjum. Bent er á að samantekið stefni hin sveitarfélögin sex að því að snúa halla í lítillegan afgang upp á 893 milljónir eða 0,5% af tekjum.

„Reiknað er með að skuldir og skuldbindingar í A-hluta þessara sjö sveitarfélaga muni aukast um 7,5% og lækki lítillega sem hlutfall af tekjum. Mörg sveitarfélaganna stefna að stórauknum fjárfestingum á næsta ári. Það á þó ekki við um Reykjavíkurborg en borgin hefur staðið í miklum fjárfestingum undanfarin ár,“ segir m.a. á minnisblaðinu.

Höf.: Ómar Friðriksson