Lokanir Nokkuð er um að stofnanir loki afgreiðslu sinni um hátíðarnar.
Lokanir Nokkuð er um að stofnanir loki afgreiðslu sinni um hátíðarnar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Nokkuð er um að ríkisstofnanir kjósi að loka afgreiðslu sinni á milli jóla og nýárs, en það vakti athygli fyrir jól þegar fregnir bárust af því að starfsfólk Hagstofu Íslands myndi fá fjögurra daga frí um hátíðarnar vegna góðrar frammistöðu í desember, sem væri mikill álagstími hjá stofnuninni

Nokkuð er um að ríkisstofnanir kjósi að loka afgreiðslu sinni á milli jóla og nýárs, en það vakti athygli fyrir jól þegar fregnir bárust af því að starfsfólk Hagstofu Íslands myndi fá fjögurra daga frí um hátíðarnar vegna góðrar frammistöðu í desember, sem væri mikill álagstími hjá stofnuninni.

Í samantekt mbl.is á lokunum ríkisstofnana í kringum hátíðarnar, sem birtist í gærkvöldi, kom fram að slíkar lokanir væru víðar en hjá Hagstofunni, en ekki lægi fyrir hvort starfsfólk viðkomandi stofnana hefði fengið aukafrídaga eða væri að nýta orlofsdaga sína.

Kom þar m.a. fram að Menntamálastofnun yrði lokuð á milli jóla og nýárs, en að starfsfólkið myndi nýta sína eigin frídaga til þess. Þá er lokað hjá Rannís fram til 3. janúar, sem og hjá Hugverkastofnun. Hljóðbókasafn Íslands er lokað fram til 2. janúar. Lyfjastofnun verður opin, en lágmarksþjónusta veitt á milli jóla og nýárs, á meðan Neytendastofa var einungis með lokað á Þorláksmessu.

Þá verða skrifstofur Hæstaréttar opnar fram til hádegis fram til 6. janúar og skrifstofur Landsréttar sömuleiðis fram til 2. janúar. Skrifstofur hinna ýmsu héraðsdóma eru nú allar lokaðar, flestar til 1. janúar, en skrifstofa héraðsdóms Suðurlands er lokuð til 30. desember og héraðsdóms Austurlands til 3. janúar.