Tunguháls Viðbragðstími slökkviliðsins styttist verulega með byggingu nýrrar stöðvar í Breiðholti.
Tunguháls Viðbragðstími slökkviliðsins styttist verulega með byggingu nýrrar stöðvar í Breiðholti. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Verið er að fara yfir staðsetningu nýrrar slökkvistöðvar í stað stöðvarinnar á Tunguhálsi í Reykjavík. Nýjar athuganir á viðbragðstíma staðfesta það sem áður hefur verið gefið út að æskilegasta staðsetning nýrrar slökkvistöðvar er við Breiðholtsbraut í tengslum við væntanlegan Arnarnesveg. Þar er hins vegar ekki nein lóð á lausu og eru þau mál í athugun.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Verið er að fara yfir staðsetningu nýrrar slökkvistöðvar í stað stöðvarinnar á Tunguhálsi í Reykjavík. Nýjar athuganir á viðbragðstíma staðfesta það sem áður hefur verið gefið út að æskilegasta staðsetning nýrrar slökkvistöðvar er við Breiðholtsbraut í tengslum við væntanlegan Arnarnesveg. Þar er hins vegar ekki nein lóð á lausu og eru þau mál í athugun.

Lengi hefur verið rætt um staðsetningu og byggingu nýrrar slökkvistöðvar í stað stöðvarinnar á Tunguhálsi. Málið var komið á framkvæmdaáætlun byggðasamlags um slökkviliðið á árinu 2021 en komst ekki til framkvæmda þá. Birgir Finnsson, starfandi slökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, segir að það hafi lengi legið fyrir að stöðin á Tunguhálsi er ekki vel staðsett varðandi viðbragðstíma liðsins og vilji sé til að bæta úr því. Hann segir að óvissa hafi verið um málið, meðal annars vegna óvissu um endanlega legu Arnarnesvegar sem tengist Breiðholtsbraut ofan við Seljahverfi. Nú hafi verið leyst úr því máli.

Ný stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins fékk kynningu á stöðu málsins á dögunum og starfsfólk slökkviliðsins er að vinna frekari gögn sem stjórnin mun fjalla um á fundi sínum í janúar.

Birgir segir mikilvægt að viðbragðstími liðsins sé sem skemmstur fyrir sem flest hverfi sem hún á að þjóna. Hermanir sýni að þeir staðir sem áður hefur verið bent á, það er að segja ofarlega við Breiðholtsbraut, í tengslum við Arnarnesveg, séu heppilegasta staðsetningin fyrir flest hverfin.

Ný stöð eykur öryggi

Staðsetning þar og nýr Arnarnesvegur munu bæta mjög öryggi í Breiðholti og efri byggðum Kópavogs sem hefur verið ábótavant. Þegar málið var síðast athugað, í byrjun árs 2019, komu tveir til þrír kostir þar til greina. Engin lóð var þó á lausu þar og það hefur ekki breyst, að sögn Birgis, en málið er í athugun.

Unnið er að undirbúningi byggingar björgunarmiðstöðvar við Holtagarða en hún mun hýsa starfsemi nokkurra stofnana ríkisins, svo sem Landhelgisgæslunnar, Tollgæslunnar, Neyðarlínunnar, embættis ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en einnig Landsbjargar og yfirstjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Birgir segir að óvissa sé um framtíð slökkvistöðvarinnar við Skógarhlíð þegar starfsemi björgunarmiðstöðvarinnar færist í nýtt hús. Þar þurfi að vera slökkvistöð til að þjóna nálægum hverfum, vesturbæ Reykjavíkur og Seltjarnarnesi. Meta þurfi hvort hentugt sé að vera áfram í núverandi húsnæði eða hvort byggja þurfi nýja stöð á því svæði.

Höf.: Helgi Bjarnason