Kristján Þórður Snæbjarnarson
Kristján Þórður Snæbjarnarson
Skiptastjórar hlutafélaga geta framvegis krafist þess að stjórnendur þeirra verði úrskurðaðir í atvinnurekstrarbann í þrjú ár vegna skaðlegra eða óverjandi viðskiptahátta til að stemma stigu við kennitöluflakki og annarri misnotkun á hlutafélagaforminu

Skiptastjórar hlutafélaga geta framvegis krafist þess að stjórnendur þeirra verði úrskurðaðir í atvinnurekstrarbann í þrjú ár vegna skaðlegra eða óverjandi viðskiptahátta til að stemma stigu við kennitöluflakki og annarri misnotkun á hlutafélagaforminu. Var þetta samþykkt samhljóða með breytingu á lögunum um gjaldþrotaskipti á Alþingi fyrir jólaleyfi þingmanna.

Verkalýðshreyfingin hefur um árabil barist fyrir því að komið verði böndum á kennitöluflakkið og náðu ASÍ og Samtök atvinnulífsins samstöðu árið 2017 um tillögur um aðgerðir til að stöðva kennitöluflakk og hafa stjórnvöld unnið að útfærslum á þessum tillögum um atvinnurekstrarbann á umliðnum árum. Skref var stigið í þessa sömu átt árið 2019 með breytingu á hegningarlögunum og með nýju löggjöfinni sem Alþingi samþykkti fyrir jól er útfært hvernig heimilt verði að sporna við misnotkun á hlutafélagaforminu og kennitöluflakki í atvinnurekstri.

Verulega jákvæð breyting

Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ og formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, segist ekki sjá betur en að Alþingi hafi með þessu stigið jákvætt skref í þessa átt, þótt verkalýðshreyfingin hafi gjarnan viljað komast enn lengra með þetta mál. „Þetta er vissulega verulega jákvæð breyting á lögunum. Við höfum verið að kalla eftir þessum breytingum þannig að ekki verði sífellt hægt að stofna fyrirtæki, setja þau svo í þrot og byrja síðan upp á nýtt og mér sýnist að því sé náð að ákveðnu marki með þessum breytingum,“ segir hann.

Samkvæmt lögunum verður mögulegt að leggja atvinnurekstrarbann á einstaklinga sem hafa komið að stjórnun félags á síðustu 18 mánuðum fyrir svonefndan frestsdag og getur það einnig átt við um skuggastjórnendur, sem starfa í raun sem stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar félags án þess að vera formlega skráðir sem slíkir. Ef einstaklingar hafa verið úrskurðaðir oftar en einu sinni í atvinnurekstrarbann er mögulegt að þeir geti fengið allt að tíu ára bann.

Mikið samfélagslegt tjón

Talið er víst að samfélagslegt tjón vegna kennitöluflakks og misnotkunar á hlutafélagaforminu hlaupi á verulegum fjárhæðum á hverju ári og því sé til mikils að vinna að stemma stigu við því. Hefur það verið samdóma álit ASÍ og SA að mikilvægt sé að unnt verði „að stöðva kennitöluflakkara og aðra vanhæfa einstaklinga frá því að halda áfram að valda samfélaginu tjóni með skjótvirkum hætti“, eins og sagði í sameiginlegri umsögn samtakanna til Alþingis á sínum tíma.
omfr@mbl.is