Berþór Ólason
Berþór Ólason
Ég hafði ætlað mér að vera voða jólalegur í þessum pistli sem er svona haganlega tímasettur mitt á milli jóla og nýárs en stóðst ekki mátið að varpa frekar ljósi á marga furðuna sem virðist lifa góðu lífi í boði ríkjandi stjórnvalda

Ég hafði ætlað mér að vera voða jólalegur í þessum pistli sem er svona haganlega tímasettur mitt á milli jóla og nýárs en stóðst ekki mátið að varpa frekar ljósi á marga furðuna sem virðist lifa góðu lífi í boði ríkjandi stjórnvalda.

Glöggur bóndi norður í landi sendi mér hátíðarkveðju á dögunum og benti mér í leiðinni á frétt á vef Landsvirkjunar undir yfirskriftinni „Upprunaábyrgðir fylgja ekki lengur í heildsölu“. Það er að segja, þeir sem kaupa græna orku af Landsvirkjun þurfa nú að kaupa sérstaklega staðfestingu á grænum uppruna (með öðrum orðum, aflátsbréf). Ég geymi til betri tíma skrif um sölu Landsvirkjunar á aflátsbréfunum en við lestur þessarar fréttar varð mér hugsað til þess hversu margir hafa algerlega gleymt grunntilgangi sínum í rekstri og látið leiðast út í rétttrúnaðarfenið með tilheyrandi kostnaði.

Væri ekki betra ef fyrirtæki í eigu ríkis eða sveitarfélaga hættu að flækja sig í málum sem hafa í raun enga þýðingu – allra síst fyrir skattgreiðandann - og einbeittu sér að því að sinna grunntilgangi sínum.

Landsvirkjun gæti til dæmis einbeitt sér að því að framleiða græna orku hér heima fyrir.

Orkuveita Reykjavíkur gæti tryggt heitt vatn á fullum þrýstingi til fólks á köldustu dögum ársins. Þá væri engin þörf á tilkynningum eins og þeirri sem kom rétt fyrir jól um að fólk þyrfti að hafa jólabaðið stutt nú eða sleppa því. Fólk gæti þá líka farið í sund í kringum jólin en ekki komið að lokuðum dyrum.

Sveitarfélagið Reykjavík hefði getað sinnt frumskyldu sinni á nær öllum sviðum en nefnum snjómoksturinn, sorphirðu og lóðaframboð. Reykvíkingar og aðrir sem keyra um höfuðborgina stóðu í ströngu þegar snjór féll af himnum hér rétt fyrir jól – eitthvað sem ætti ekki að koma á óvart en lengi skal manninn reyna á skrifstofu borgarstjóra. Mokstur í lágmarki og allt í klessu. Lausnin var að skipa nefnd og rýna. Malbikunarstöð Reykjavíkurborgar þurfti svo að flytja til Hafnarfjarðar því enga lóð var að finna undir starfsemina í Reykjavík. Síðast en ekki síst þá flæðir ruslið út á snæviþaktar göturnar í höfuðborginni því sorpið er varla sótt.

Einn stóru bankanna gæti líka hætt að reyna að skóla alla aðra til þegar kemur að hugðarefnum bankastjórans – eins og kynjahlutföllum í fjölmiðlum. Bankinn gæti einbeitt sér að betri bankarekstri og til dæmis hætt að hóta fjölmiðlum banni við auglýsingakaupum ef þeir fylgja ekki stefnu bankans hvað varðar kynjahlutföll í viðtölum.

Allir hafa stjórnendur þessara fyrirtækja og sveitarfélaga gleymt tilgangi þess sem þeir stjórna. Í öllum tilvikum er um að ræða fólk sem situr og stjórnar í skjóli annarra manna peninga. Peninga og eigna skattgreiðenda.

Lögum þetta á nýju ári. Og gleðilega hátíð.

Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins bergthorola@althingi.is