Afganistan Hin 18 ára Marwa stóð ein á jóladag með mótmælaskilti andspænis hermönnum talíbana vegna banns á menntun kvenna.
Afganistan Hin 18 ára Marwa stóð ein á jóladag með mótmælaskilti andspænis hermönnum talíbana vegna banns á menntun kvenna. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Dóra Ósk Halldórsdóttir doraosk@mbl.is

Fréttaskýring

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Í fyrsta sinn fannst mér ég vera sterk og öflug þar sem ég stóð og krafðist réttinda sem Drottinn hefur gefið okkur,“ sagði hin 18 ára Marwa við blaðamenn AFP-fréttaveitunnar, en hún stóð ein frammi fyrir talíbönum úti á götu í Kabúl í Afganistan og mótmælti banni yfirvalda á því að afganskar konur sæktu háskóla í landinu. Hún lét sig hafa háð og spott hermanna talíbananna og hættuna á fangelsun, ofbeldi og félagslegri útskúfun. Systir Mörwu tók upp myndband af mótmælunum úr bíl í nokkurri fjarlægð. Marwa bað fréttamenn AFP að halda fullu nafni sínu leyndu vegna hættu á að fjölskylda hennar yrði ofsótt.

Ákvörðun talíbana frá 20. desember leggur í rúst drauma og vonir margra afganskra kvenna sem sjá framtíðarmöguleika sína verða að engu og réttindi sín fótum troðin í karlaveldi talíbana sem líta á konur sem þræla eingöngu til að þjóna þörfum karlmanna. Nokkrar konur reyndu að mótmæla en talibanar leystu mótmælin samstundis upp. Á aðfangadag var öllum konum sem unnu fyrir hjálparsamtök bannað að mæta til vinnu.

Á jóladag fór Marwa ein fram að hliði háskólans í Kabúl með skilti sem á stóð „Iqra“ sem er arabíska orðið fyrir „lestur“. „Þeir sögðu mjög ljóta hluti við mig, en ég ákvað að vera róleg,“ sagði hún. „Ég vildi sýna að styrkur einnar afganskrar stúlku skiptir máli, að jafnvel ein manneskja geti staðið gegn kúgun.“

Fangelsi allra kvenna

Réttindi kvenna undir stjórn talíbana í Afganistan eru orðin nánast engin og mótmæli eru fátíð, ekki síst eftir handtökur snemma á árinu. Frá því að talíbanar náðu aftur völdum í ágúst á síðasta ári hafa réttindi kvenna nánast horfið gjörsamlega, þrátt fyrir loforð um að harðlínustefna klerkavaldsins yrði mildari eftir að herlið Bandaríkjanna fór frá landinu. Framhaldsskólar fyrir stúlkur hafa verið lokaðir í meira en ár og konum hefur jafnt og þétt verið úthýst úr öllum opinberum störfum landsins. Nú er búið að loka háskólum fyrir konum landsins. Og þar stoppar ekki ofbeldið.

Auk þess að hylja sig frá toppi til táar eiga konur líka að vera ósýnilegar á almennum vettvangi. Þeim er nú bannað að fara í lystigarða, líkamsræktarstöðvar og almenningsbaðhús. Talíbanar réttlæta hörkuna með því að konur fari ekki eftir reglum um klæðaburð. „Þegar systur mínar sjá að ein stúlka hefur staðið á móti talíbönunum mun það hjálpa þeim að rísa upp og berjast,“ sagði Marwa og segir að landið sé orðið að fangelsi fyrir konur. „Ég vil ekki vera í fangelsi. Ég á mér drauma, vonir og þrár, sem ég vil að geti ræst. Þess vegna hef ég ákveðið að mótmæla.“

Fordæming umheimsins

Alþjóðasamfélagið hefur fordæmt þessar nýjustu árásir á réttindi afganskra kvenna. „Þessi nýjasta aðför (að réttindum kvenna) er óþolandi,“ segir í yfirlýsingu franska utanríkisráðuneytisins. Frakkar sögðu líka að þetta myndi hafa áhrif á alla mannúðaraðstoð til landsins, en landið stendur frammi fyrir alvarlegri efnahagskrísu og hungursneyð. Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, Volker Turk, sagði afleiðingarnar skelfilegar fyrir afganskar konur og þjóðina alla. „Tilraunir stjórnvalda til að þagga niður í konum og gera þær ósýnilegar með öllu munu ekki takast.“

Konur í Afganistan

Glæpur að vera kona

Síðustu áratugir hafa verið stormasamir í landinu með uppgangi kommúnista á sjöunda áratugnum og síðan innrás Rússa í landið og löngu og erfiðu stríði við skæruliða Afgana, sem fengu aðstoð frá m.a. Bandaríkjunum og Bretlandi. Osama bin Laden stofnaði al-Qaeda til að fara í heilagt stríð, fyrst gegn Rússum, en síðar gegn Vesturlöndum og Bandaríkjunum sérstaklega. Undir stjórn talíbana versnaði staða kvenna og réttindi þeirra eru tekin af þeim í krafti kennisetninga íslams.

Það er því sérstakt að hugsa til þess að konur fengu kosningarétt 1919 í landinu, ári síðar en konur gátu kosið í Bretlandi og ári áður en konur fengu kosningarétt í Bandaríkjunum. En á tíunda áratugnum, undir stjórn talíbana, varð það glæpur að vera kona. Konur máttu ekki mennta sig, vinna utan heimilis, fara út úr húsi án fylgdar karlmanns, þær urðu að hylja húð sína, höfðu ekki aðgang að heilsugæslu og var bannað að tala opinberlega.

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir