Vetrarríki Í húsi á Eyrarbakka var staðan svona í gær þegar fólk fór úr húsi sínu. Snjógöng í gegnum skaflinn sem var fyrir forstofudyrunum.
Vetrarríki Í húsi á Eyrarbakka var staðan svona í gær þegar fólk fór úr húsi sínu. Snjógöng í gegnum skaflinn sem var fyrir forstofudyrunum. — Morgunblaðið/Kjartan Björnsson
Mannskapur á um 30 vinnuvélum, litlum sem stórum, vann í gær við snjómokstur og ruðning í Sveitarfélaginu Árborg. Mikið snjóaði þar í bæ um jólin og viðbragð nú er samkvæmt aðstæðum. Kapp hefur verið lagt á að opna stofnbrautir og fjölfarnari leiðir og svo er farið í íbúðagöturnar

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Mannskapur á um 30 vinnuvélum, litlum sem stórum, vann í gær við snjómokstur og ruðning í Sveitarfélaginu Árborg. Mikið snjóaði þar í bæ um jólin og viðbragð nú er samkvæmt aðstæðum. Kapp hefur verið lagt á að opna stofnbrautir og fjölfarnari leiðir og svo er farið í íbúðagöturnar. Mikill jafnfallinn snjór er á Selfossi svo leiðir eru torfærar og sumstaðar ná skaflar alveg upp á þak húsa. Á Eyrarbakka er líka mikið vetrarríki. Þar háttar svo til að snjór af mýrunum ofan við byggðina fýkur að húsum svo dregur í skafla. Eru sumir svo háir að sumstaðar eru hús nánast fennt í kaf. Í sumum þeirra hefur fólk þurft að grafa sig út. Þorpið er í rauninni týnt í sköflum.

Vegna stöðu mála var í gærmorgun haldinn fundur í almannavarnaráði Árborgar. Þangað mættu bæjarstjóri, fulltrúar björgunarsveita í Sveitarfélaginu Árborg, fulltrúar lögreglu og fulltrúar frá þjónustumiðstöð Árborgar. Farið var yfir aðstæður fólks og hvaða aðgerðir þarf svo sem við snjómokstur, sorphiðu og fleira.

„Nú gildir bara að taka þessu af æðruleysi. Hér erum við öll samtaka í því að láta hlutina ganga upp. Björgunarsveitir aðstoða við ýmislegt og starfsfólk sveitarfélagsins er í ýmsum aðgerðum sem spretta af þessu ástandi. Nú bara gildir hér að moka meiri snjó eins og hljómsveit héðan frá Selfossi söng í gamla daga,“ segir Fjóla St. Kristinsdóttir, bæjarstjóri í Árborg, í samtali við Morgunblaðið.

Mikill snjór er einnig á Suðurnesjum. Í samtali við mbl.is í gær sögðu menn í Grindavík að sennilega þyrfti að fara aftur til 2008 til þess að finna dæmi um sambærilegar aðstæður og þar eru nú. Allir helstu þjóðvegir landsins voru opnir í gær, en víða er þungfært eða þæfingur, til dæmis úti í sveitunum.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson