Svanhildur Hólm Valsdóttir Framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands Á þessu ári komst hugtakið Stóra uppsögnin, eða The Great Resignation, í hámæli hér á landi. Þetta er alþjóðlegt ástand sem að miklu leyti er eignað breyttu hugarfari í og eftir…

Svanhildur Hólm Valsdóttir
Framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Á þessu ári komst hugtakið Stóra uppsögnin, eða The Great Resignation, í hámæli hér á landi. Þetta er alþjóðlegt ástand sem að miklu leyti er eignað breyttu hugarfari í og eftir heimsfaraldur og lýsir sér í mun meiri starfsmannaveltu en fyrirtæki eiga að venjast. Hérlendis segist yfir helmingur fyrirtækja eiga erfitt með að manna störf og hefur sambærilegt hlutfall ekki sést síðan fyrir hrun.

Samkeppni um starfsfólk er því mikil og ekki einungis milli fyrirtækja. Hið opinbera hefur tekið æ meira til sín undanfarin ár, bæði ríki og sveitarfélög. Þar hafa laun hækkað meira en á almennum vinnumarkaði, starfsfólki fjölgað hraðar en landsmönnum og stytting vinnuvikunnar verið tekin föstum tökum. Nýleg úttekt KPMG leiddi í ljós að næstum 80% stofnana ríkisins innleiddu hámarksstyttingu í einu skrefi og er starfsfólk að vonum ánægt. Á móti kemur að þjónustukönnun sýnir að ánægja almennings hefur minnkað í öllum flokkum síðastliðin tvö ár.

Við eigum öll mikið undir því að hið opinbera sé vel mannað og geti veitt nauðsynlega þjónustu hratt og örugglega. Það er samt sem áður löngu komið að því að forgangsraða verkefnum og ákveða hvað eigi betur heima annars staðar en í opinberum rekstri. Það vakti líka óneitanlega athygli í haust þegar meirihlutinn í Reykjavík boðaði nýja stefnu í ráðningarmálum, sem skilur eiginlega eftir fleiri spurningar en svör, en stefnan nú felst í því að ráða einungis í nauðsynleg störf.

Því má ekki heldur gleyma að með því að færa fleiri verkefni frá ríki og sveitarfélögum fjölgar valkostum fólks um vinnuveitendur. Sumt verður þó alltaf á borði hins opinbera, en þá er hollt að horfa til þess að það er allra hagur að vinna í umhverfi sem umbunar fyrir vel unnin störf. Einhvern veginn er pólitískt aldrei réttur tími til að ræða þessi mál og afleiðingin er seigfljótandi opinbert starfsumhverfi þar sem ráðningar eru flóknar og uppsagnir nær ómögulegar, sem jú, býður upp á öryggi, en ekki endilega örvun, veldur stundum hægagangi en um leið of miklu vinnuálagi á duglega starfsmenn. Þessu mætti breyta með því að gera réttindi og skyldur starfsmanna hins opinbera sambærilegar við starfsfólk í einkageiranum, rétt eins og gert var með lífeyrismálin fyrir nokkrum árum. Gera má ráð fyrir að ávinningurinn fælist m.a. í vandaðri vinnubrögðum, skilvirkari þjónustu, betri nýtingu á skattfé, meira flæði milli vinnumarkaðanna, færri vandræðalegum tilfærslum í starfsmannakerfi hins opinbera og færri dýrum starfslokasamningum. Slíkar breytingar á réttindaumhverfinu myndu vafalaust einnig draga úr spennunni milli opinbera og almenna markaðarins.

Samningar opinberra starfsmanna losna flestir á næsta ári. Er það ekki jafngóður tími og hver annar til að stíga skref í átt að einum vinnumarkaði?