Pétur Blöndal Framkvæmdastjóri Samtaka álframleiðenda á Íslandi Af er það sem áður var þegar menn þurftu að halda til fjalla í leit að flugvélarflökum og verða sér þannig úti um ál til að endurvinna það

Pétur Blöndal
Framkvæmdastjóri Samtaka
álframleiðenda á Íslandi

Af er það sem áður var þegar menn þurftu að halda til fjalla í leit að flugvélarflökum og verða sér þannig úti um ál til að endurvinna það. Þannig var um Málmsteypuna Hellu á skömmtunarárunum um miðja síðustu öld. Síðan þá hefur þetta rótgróna fjölskyldufyrirtæki í Hafnarfirði fundið aðrar leiðir til að útvega ál til endurvinnslu og úr verða margvíslegar vörur á borð við skilti, bekki og hönnunarmuni.

Lífskjarasókn byggist á útflutningi

Þegar kemur að hringrásarhagkerfinu er engin kyrrstaða. Engu að síður er Ísland of fámennt til að hér geti orðið umfangsmikil endurvinnsla áls til útflutnings. Það fellur einfaldlega ekki nóg til af áli hér á landi til að standa undir neinni stórútgerð.

Smæð heimamarkaðarins er sömuleiðis skýringin á því að Ísland er útflutningsdrifið hagkerfi. Þess vegna hefur orkusækinn iðnaður skotið rótum hér á landi, umfram aðra iðnaðarframleiðslu, af því að hann staðsetur sig nálægt uppsprettu orkunnar; óhagræðið við fjarlægðina frá markaðnum á meginlandinu vegur ekki eins þungt.

Stundum er kvartað undan því að við framleiðum meira ál en við nýtum sjálf – útflutningsþjóðin. Það stenst vitaskuld enga skoðun, eins og aðfinnsluvert sé að framleiða ál, veiða fisk, þróa lyf eða hanna tölvuleiki, bara af því að útlendingar njóta þess. Með því að sækja út í heim öflum við þvert á móti þekkingar, skerpum á samkeppnishæfni, öflum gjaldeyris og leggjum grunninn að frekari lífskjarasókn. Það skapar aftur tækifæri og spennandi störf fyrir komandi kynslóðir.

Loftslagsvanda ekki úthýst

Til þess að knýja fram orkuskipti á heimsvísu er mikilvægt að staðsetja orkusækna framleiðslu nálægt endurnýjanlegri orku, eins og gert er á Íslandi og einnig í orkuríkum nágrannalöndum á borð við Noreg og Kanada.

Nú er unnið að atvinnugreinaskiptri nálgun í loftslagsmálum hér á landi í samtali stjórnvalda og atvinnulífs og er þar m.a. sótt í smiðju Dana. Athyglisvert er að í sinni stefnumörkun leggja Danir til grundvallar að takast ekki á við orkuskipti með því að úthýsa vandanum. Glíman við loftslagsvandann er hnattræn en ekki staðbundin. Og þannig verða lausnirnar að vera líka.