Guðrún Ólöf Gunnarsdóttir sagði frá því í viðtali að hún léti krabbameinið ekki stoppa sig.
Guðrún Ólöf Gunnarsdóttir sagði frá því í viðtali að hún léti krabbameinið ekki stoppa sig. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sterk tengsl milli magaermaraðgerða og áfengisfíknar Esther Helga Guðmundsdóttir ræddi það í viðtali á Smartlandi að hún hefði áhyggjur af því hversu margar megrunaraðgerðir á borð við magaermi og magahjáveitu væru gerðar hér á landi

Sterk tengsl milli magaermaraðgerða og áfengisfíknar

Esther Helga Guðmundsdóttir ræddi það í viðtali á Smartlandi að hún hefði áhyggjur af því hversu margar megrunaraðgerðir á borð við magaermi og magahjáveitu væru gerðar hér á landi. Hún sagði að undirliggjandi fíknivandi fólks gæti oftar en ekki verið stærsta vandamálið.

„Rannsóknir bæði hér heima og erlendis hafa sýnt að allt að 60% þeirra sem fara í magaermi eða annars konar magaaðgerðir hafa tilhneigingu til að þróa með sér aðra fíkn,“ sagðir Esther Helga og bætti við:

„Áfengið kemst miklu greiðar inn í blóðrásina hjá þeim sem ekki hafa innyfli til að taka á móti því. Þar með þarf miklu minna til í þróun á áfengisvanda. Þetta bendir beinlínis til að þeir sem leita eftir að fara í svona aðgerðir fái ekki greiningu á því áður hvort þeir glími við matar- eða sykurfíkn eða ekki. Síðan fer þetta fólk bara í aðgerð og situr svo uppi með alls kyns afleiðingar af því að ekki var tekið á fíknivanda þess,“ sagði hún og benti á að fíknivandi gæti verið flókið samspil margra þátta.

Guðrún Ólöf missti annan fótinn vegna krabbameins

Guðrún Ólöf Gunnarsdóttir varð fyrir miklu áfalli þegar í ljós kom að það þyrfti að taka af henni fótinn fyrir ofan hné vegna krabbameins. Hún sagði frá því í viðtali að hún liti framtíðina björtum augum þrátt fyrir veikindi sín. Hún er með það markmið að ganga á hælaskóm aftur og geta gengið án stuðnings.

„Ég vil ekki vera sú sem vorkennir sjálfri sér. Ég reyni því í hvert skipti sem ég fer að hugsa eitthvað neikvætt að gera hluti sem færa mér frið og aðeins nær markmiðum mínum. Það þarf ekki að vera flókið. Stundum tek ég nokkrar armbeygjur og stundum fer ég bara að prjóna. Eymd og volæði fá ekki að búa í höfðinu á mér. Lífið er alls konar og við lendum öll í einhverju. Það var ekkert sem ég gat gert við þessum veikindum mínum og það eru allir boðnir og búnir að veita mér stuðning. Svo eru til alls konar sjúkdómar, og sumir ekki eins heppnir og ég með stuðning. Ég reyni að hafa það hugfast í bataferlinu,“ sagði Guðrún Ólöf.

Sara fann ástina aftur eftir andlát Piana

Framtíðin er björt hjá Söru Piana sem flutti hingað heim haustið 2020 eftir tíu ára búsetu í Bandaríkjunum. Eftir nokkur erfið ár eftir fráfall fyrrverandi eiginmanns síns, vaxtarræktarmannsins Rich Piana, segist Sara hafa fundið sjálfa sig aftur. Hún er nú tekin saman við Chris Miller, og eru þau nýbúin að gifta sig og hún búin að taka upp eftirnafnið Miller.

Þrátt fyrir að hafa átt góð ár í Bandaríkjunum var Sara komin með algjörlega nóg af lífinu þar eftir allt sem hún þurfti að ganga í gegn um. „Sambandsslitin við Rich, mannorðið eyðilagt ásamt því að fá yfir 350 hótanir um að fólk ætlaði að drepa mig út af lygum sem voru sagðar um mig, það var alveg ömurlegt. Ég gekk í gegnum erfiða tíma eftir andlát hans og allt sem því fylgdi. Ég áttaði mig á því að ég þyrfti að einbeita mér að sjálfri mér og vinna úr þessu. Mig langaði til að fara heim til Íslands og vera nær fjölskyldu minni,“ sagði Sara í viðtali á Smartlandi.