Árni Kristinsson læknir sendi mér þessa stöku með þeirri skýringu að Jónas Frímannsson hefði sent þeim bekkjarsystkinunum hana: Fer að hækka fögur sól, fagna lýðir heims um ból. Hingað koma heilög jól, hjúpað Frón er mjallar kjól

Árni Kristinsson læknir sendi mér þessa stöku með þeirri skýringu að Jónas Frímannsson hefði sent þeim bekkjarsystkinunum hana:

Fer að hækka fögur sól,

fagna lýðir heims um ból.

Hingað koma heilög jól,

hjúpað Frón er mjallar kjól.

Í Vísnahorni á laugardag fór ég rangt með höfund limru. Hún er eftir Guðmund Arnfinnsson. Ég bið hann afsökunar á mistökunum og læt fylgja leiðréttingu hans á Boðnarmiði:

Við tóvinnu sat hún Tinna

og Tumi var fénu að sinna,

Gunna var þreytt

og gerði´ ekki neitt,

en Geiri fór músum að brynna.

„Þetta limrukorn mitt, sem hefur áður birtst á Boðnarmiði og einnig í Vísnahorni Moggans 17. des. sl. er endurbirt í blaðinu í dag, en á að sjálfsögðu ekki heima með ágætum limrum Helga Einarssonar“.

Þorvaldur Guðmundsson skrifar á Boðnarmjöð: „Sigurjón skarfur var á trollvakt á spilinu á Ingólfi Arnarsyni þegar kallað var „Hífopp“ klukkan sex á aðfangadagskvöld. Hann leit upp í brúargluggann og sagði“:

Hvað boðar yður betri jól

en botnvörpungsins skrapatól.

Togvindunnar tromluhjól

tralla Heims um ból.

Jón Jens Kristjánsson segist hafa lesið svipað eftir Jónas Árnason:

Á Halamiðum hélt hann jól

í hörku norðangarði

tók í nefið, tuggði rjól

og tök sín hvergi sparði

á meðan rok í mastri gól

og mávar sungu Heims um ból

og togvindunnar tromluhjól

taktinn undir barði

taktinn undir sálmasönginn barði

Jón Jens skrifaði á jóladag: „Brögð voru að því að lokanir væru ekki virtar í gærkveldi og björgunarsveitir fengu ekki matfrið vegna anna að sækja fólk er í óefni var komið“:

Óveður hér einatt veldur stíflum

umferðar, þá myndast kuldahrollur

í þeim sem alltaf eru að bjarga fíflum

àður en þeir verða biðukollur.

Gunnar Hólm Hjálmarsson yrkir:

Við sólstöður þess minnast má

að mörg var stundin hlýrri.

Vetrarkvíðinn verður þá

að vonarglætu nýrri.