Vatnsmýrin Snjómokstur var í fullum gangi á flugvellinum í gær.
Vatnsmýrin Snjómokstur var í fullum gangi á flugvellinum í gær. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Fannfergi var á höfuðborgarsvæðinu í gær eftir snjókomu um nóttina og þurfti því að moka snjó víða, þar á meðal á Reykjavíkurflugvelli, þar sem moksturinn var í fullum gangi þegar ljósmyndara Morgunblaðsins bar að garði

Fannfergi var á höfuðborgarsvæðinu í gær eftir snjókomu um nóttina og þurfti því að moka snjó víða, þar á meðal á Reykjavíkurflugvelli, þar sem moksturinn var í fullum gangi þegar ljósmyndara Morgunblaðsins bar að garði.

Eiður Fannar Erlendsson, yfirmaður vetrarþjónustu Reykjavíkur, sagði í gærmorgun að gert væri ráð fyrir svipuðum fjölda snjóruðningstækja á götum borgarinnar og í síðasta fannfergi, en það voru um 20 tæki. Áætlaði Eiður að það gæti tekið allt að fjóra eða fimm daga að klára gatnamoksturinn, en gert var ráð fyrir annarri umferð í mokstri á stofnbrautum til að halda þeim við.

Þá verða tafir á sorphirðu á höfuðborgarsvæðinu vegna veðurs. Sagði Valur Sigurðsson, rekstrarstjóri sorphirðu hjá Reykjavík, við mbl.is í gær að stefnt væri að því að tæma almennar sorptunnur fyrir áramót, en að endurvinnslutunnur myndu líklega þurfa að bíða.