Myndmerki Paddy’s í Keflavík.
Myndmerki Paddy’s í Keflavík.
Veitingastaðurinn Paddy’s Beach Pub, sem Suðurnesjamenn kalla sumir hverjir „Pödduna”, fær að halda nafninu sínu. Rekstrarfélag staðarins var á dögunum sýknað af kröfum fyrrverandi eiganda forvera síns, Paddy’s Irish Pub

Mynd: Hugverkastofan

Veitingastaðurinn Paddy’s Beach Pub, sem Suðurnesjamenn kalla sumir hverjir „Pödduna”, fær að halda nafninu sínu. Rekstrarfélag staðarins var á dögunum sýknað af kröfum fyrrverandi eiganda forvera síns, Paddy’s Irish Pub. Fyrri eigandi hafði stefnt núverandi rekstraraðilum vegna notkunar á vörumerki í sinni eigu og krafðist þess að notkun nafnsins yrði hætt.

Árið 2014 tóku nýir aðilar við staðnum, en þeir höfðu keypt húsnæði af Þróunarsjóði Reykjanesbæjar og keypt allt innbú úr þrotabúi fyrri staðarins. Sama ár hafði fyrri eigandi skráð myndmerkið, grænan álf með rautt hár og skegg, haldandi á skilti með þáverandi nafni staðarins.

Í niðurstöðu kafla dómsins kom fram að einu líkindi núverandi staðar og fyrra vörumerkisins væru orðin Paddy og Pub, og var hvorugt þeirra talið bera nægjanleg sérkenni. Með vísan til þess var talið að notkun heitisins Paddy’s hefði ekki falið í sér brot á vörumerkjarétti.

Frá árinu 2003 hefur verið starfræktur veitingastaður í sama húsi, kenndur við Paddy’s, sem er algengt uppnefni fyrir Íra, og vísar til verndardýrlingsins Saint Patrick. Paddy’s verður því tuttugu ára á næsta ári og hefur verið áberandi í skemmtanalífi Suðurnesjamanna alla tíð. Frægast var þó þegar stjörnuhjónin Jay Z og Beyoncé settust niður og fengu sér bjór á staðnum árið 2008 og horfðu á leik í úrslitakeppni í amerískum fótbolta árið 2008. Staðurinn var nýlega opnaður aftur eftir þriggja vikna lokun, en Paddy’s er einn af tökustöðum nýjustu þáttaraðar True Detective, sem er í upptökum hér á landi um þessar mundir.

Höf.: Mynd: Hugverkastofan