Mjólkurkýr Mjólkurframleiðslan tók við sér upp úr miðju ári.
Mjólkurkýr Mjólkurframleiðslan tók við sér upp úr miðju ári. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Áætlað er að innvigtuð mjólk til aðildarfélaga Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði verði tæplega 148 milljónir lítra þegar upp verður staðið um áramót. Er það tæpum milljón lítrum minna en var á síðasta ári

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Áætlað er að innvigtuð mjólk til aðildarfélaga Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði verði tæplega 148 milljónir lítra þegar upp verður staðið um áramót. Er það tæpum milljón lítrum minna en var á síðasta ári. Ágætis jafnvægi er í framleiðslunni miðað við útgefið greiðslumark og sölu á innanlandsmarkaði.

Mjólkurframleiðslan jókst mjög fram til ársins 2018 er hún náði hámarki og var þá orðin töluvert mikið umfram þörfina á innanlandsmarkaði sem heildargreiðslumark á að endurspegla. Sést þróunin á meðfylgjandi grafi. Frá 2018 hefur framleiðslan minnkað en sala á innanlandsmarkaði aukist.

Slaki unninn upp að hluta

Slaki var í innvigtun mjólkur til mjólkursamlaganna fram yfir mitt þetta ár. Þannig var innlögð mjólk fyrstu sjö mánuði ársins 1,9 milljónum lítra minni en árið á undan og munaði þar 2,1%. Á sama tíma jókst sala mjólkurafurða á innanlandsmarkaði vegna fjölgunar ferðafólks og ekki síst vegna samsetningar hópsins þar sem fleiri komu frá löndum þar sem mjólk er hefðbundin neysluvara en frá öðrum löndum. Sem dæmi má nefna að sala á osti hefur aukist um 200 tonn. Það vegur þungt því til þess þarf tvær milljónir lítra mjólkur.

Til að bregðast við þróuninni ákvað Auðhumla, samvinnufélag mjólkurframleiðenda, að hækka verð á mjólk sem framleidd er umfram kvóta einstakra bænda úr 70 krónum í 80 í byrjun apríl og síðan í 100 krónur frá 1. ágúst. Það varð til þess að framleiðslan tók við sér og dró til baka meira en helming samdráttar fyrri hluta ársins.

Þótt framleiðslan nái ekki sömu tölu og á síðasta ári er hún vel yfir greiðslumarki. Framleiðslan er einnig nokkuð yfir sölu á innanlandsmarkaði sem áætlað er að verði rúmlega 146 milljónir lítra, miðað við fituhluta hráefnisins.

Aukning á komandi ári

Matvælaráðherra hefur gefið út heildargreiðslumark fyrir komandi ár. Það verður 149 milljónir lítra sem er 2,5 milljóna lítra aukning. Grundvallast það á spá um aukna sölu mjólkurafurða á næsta ári. Bjarni Ragnar Brynjólfsson, skrifstofustjóri Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði, segir að framleiðslan sé í góðu jafnvægi núna. Ef áfram verði stígandi í sölu þurfi framleiðslan að vera yfir heildargreiðslumarki næsta árs.

Höf.: Helgi Bjarnason