[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sænska handknattleikskonan Sara Odden er gengin aftur í raðir Hauka og mun leika með liðinu eftir áramót. Hún kemur til félagsins frá Zwickau í Þýskalandi. Odden lék með Haukum í þrjú ár, áður en hún hélt til Þýskalands

Sænska handknattleikskonan Sara Odden er gengin aftur í raðir Hauka og mun leika með liðinu eftir áramót. Hún kemur til félagsins frá Zwickau í Þýskalandi. Odden lék með Haukum í þrjú ár, áður en hún hélt til Þýskalands. Var hún markahæsti leikmaður liðsins á síðustu leiktíð með 108 mörk í 21 leik í Olísdeildinni. Hún gæti leikið með Haukum gegn Fram í Olísdeildinni 7. janúar næstkomandi. Haukar eru í fimmta sæti deildarinnar með átta stig eftir tíu leiki.

Harry Kane, sóknarmaður Tottenham og fyrirliði enska landsliðsins í knattspyrnu, náði sögulegum áfanga á mánudag. Kane skoraði þá annað marka Tottenham þegar liðið gerði jafntefli, 2:2, í ensku úrvalsdeildinni. Þar með hefur hann náð að skora mark eða mörk hjá öllum þeim 32 félögum sem hann hefur mætt í deildinni. Þá var þetta 10. markið sem Kane skorar á öðrum degi jóla og það er líka met en áður hafði Robbie Fowler skorað flest mörk í deildinni á þeim degi, níu talsins.

Enska knattspyrnufélagið Norwich City hefur sagt knattspyrnustjóranum Dean Smith upp störfum. Þetta er í annað sinn á rúmum 13 mánuðum sem Smith missir vinnuna. Honum var sagt upp sem knattspyrnustjóra Aston Villa 7. nóvember á síðasta ári en var ráðinn til Norwich átta dögum síðar. Smith tókst ekki að halda Norwich í úrvalsdeildinni. Liðið féll í vor og er nú í fimmta sæti B-deildarinnar, tólf stigum á eftir toppliðunum Burnley og Sheffield United.

Daley Blind, landsliðsmaður Hollands í knattspyrnu, er farinn frá hollensku meisturunum Ajax sem tilkynntu í gær að hann væri laus allra mála hjá félaginu. Tíðindin koma nokkuð á óvart en hinn 32 ára gamli Blind hefur samtals leikið með aðalliði félagsins í tíu ár, í tveimur hlutum, og var áður í tíu ár í röðum barna- og unglingaliðs Ajax. Hin fjögur árin á ferlinum, frá 2014 til 2018, lék hann með Manchester United. Blind var fastamaður í hollenska landsliðinu á HM í Katar og skoraði m.a. gegn Bandaríkjunun í sextán liða úrslitum keppninnar. Hann spilaði sinn 99. landsleik þegar Holland tapaði fyrir Argentínu vítaspyrnukeppni eftir 2:2-jafntefli í átta liða úrslitunum.

Nokkur bið verður á því að pólski markahrókurinn Robert Lewandowski geti leikið aftur með félagsliði sínu Barcelona í spænsku 1. deildinni þar sem hann þarf að taka út þriggja leikja bann. Lewandowski fékk tvö gul spjöld og þar með rautt í síðasta leik Börsunga fyrir HM í Katar og brást ókvæða við. Upphaflega átti hann að fá eins leiks bann en vegna viðbragða sinna, þar sem hann gerði gys að dómaranum, ákvað spænska knattspyrnusambandið að lengja bannið í þrjá leiki. Barcelona áfrýjaði banninu til spænska íþróttadómstólsins en fékk því ekki hnekkt.