Stærsti hluthafi Mink Campers er fjárfestingarfélagið Gnitanes en 20% tilheyra Funderbeam.
Stærsti hluthafi Mink Campers er fjárfestingarfélagið Gnitanes en 20% tilheyra Funderbeam. — Skjáskot/Top Gear
Verð hlutabréfa íslenska sporthýsaframleiðandans Mink Campers hefur fallið um rúmlega 70% síðan í maí sl. á eistneska fjármögnunar- og markaðstorginu Funderbeam. Markaðsverðið hefur þannig lækkað úr rúmum milljarði króna niður í tæplega 240 milljónir króna

Verð hlutabréfa íslenska sporthýsaframleiðandans Mink Campers hefur fallið um rúmlega 70% síðan í maí sl. á eistneska fjármögnunar- og markaðstorginu Funderbeam.

Markaðsverðið hefur þannig lækkað úr rúmum milljarði króna niður í tæplega 240 milljónir króna. Verðið er nú 0,98 evrur á hlut en var 3,54 í maí.

Ellen Bergsveinsdóttir, nýráðin framkvæmdastjóri og fyrrverandi fjármálastjóri Mink Campers, segir að stríðið í Úkraínu og há verðbólga í Evrópu hafi haft neikvæð áhrif á söluna síðustu misseri. Það skýri lækkun á gengi bréfa félagsins á Funderbeam.

Markaðstorgið er skráð fyrir 20% eignarhlut en á bak við hann eru margir smærri fjárfestar, eins og Ellen útskýrir.

„Salan hefur ekki gengið eins vel og við hefðum viljað, en við erum bjartsýn fyrir næsta ár,“ segir Ellen. Hún segir að þessa dagana sé verið að fínpússa stefnuna og samhliða komi nýr markaðsstjóri að fyrirtækinu.

Mink Campers er með höfuðstöðvar á Íslandi, endursöluaðila í tuttugu löndum og framleiðslan fer fram í Lettlandi.

Sú breyting hefur orðið í framleiðsluferlinu að samstarfi hefur verið hætt við plastframleiðanda í Bretlandi. Í staðinn var samið við samstarfsaðila í Slóveníu.

„Þó að það hafi gengið misjafnlega á mörkuðum þá er gaman að segja frá því að salan í Noregi gengur alltaf jafn vel og í Bretlandi og Tékklandi hefur hún verið að aukast,“ segir hún.

Spurð um sölu þessa árs segir Ellen að 170 sporthýsi hafi selst nú þegar. Það er meiri sala en á síðasta ári og í raun mesta sala fyrirtækisins frá upphafi, en það var stofnað árið 2015.

„Við stefnum á enn meiri sölu á næsta ári með því að skerpa á markaðsmálunum.“

Meðal annars verður minkurinn kynntur á stórum ferðavagnasýningum. Hér á landi er hægt að kaupa Mink hjá Víkurverki, sem hefur að sögn Ellenar selt um 15 vagna á árinu.