Skæður Elliði Snær Viðarsson átti góðan leik fyrir Gummersbach í endurkomu Íslendingaliðsins gegn Hamburg á heimavelli í gærkvöldi.
Skæður Elliði Snær Viðarsson átti góðan leik fyrir Gummersbach í endurkomu Íslendingaliðsins gegn Hamburg á heimavelli í gærkvöldi. — Ljósmynd/Szilvia Micheller
Gummersbach hafði betur gegn Hamburg, 31:30, í þýsku 1. deildinni í handbolta gærkvöldi, er síðustu leikir deildarinnar fyrir HM í Póllandi og Svíþjóð í upphafi næsta árs voru leiknir. Hamburg var með 27:24-forskot, þegar tíu mínútur voru til…

Gummersbach hafði betur gegn Hamburg, 31:30, í þýsku 1. deildinni í handbolta gærkvöldi, er síðustu leikir deildarinnar fyrir HM í Póllandi og Svíþjóð í upphafi næsta árs voru leiknir.

Hamburg var með 27:24-forskot, þegar tíu mínútur voru til leiksloka, en Gummersbach neitaði að gefast upp og fagnaði sætum sigri. Elliði Snær Viðarsson skoraði fimm mörk fyrir Gummersbach og Hákon Daði Styrmisson tvö. Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar liðið.

Guðjón stýrði liðinu upp í efstu deild á síðustu leiktíð og hefur Gummersbach komið skemmtilega á óvart í vetur. Liðið situr í níunda sæti með 18 stig eftir 18 leiki.

Arnór Þór Gunnarsson skoraði tvö fyrir Bergischer, er liðið fagnaði 32:30-útisigri á Hannover-Burgdorf. Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf. Bergsicher er í 12. sæti deildarinnar með 16 stig, eftir tvo sigra í röð. Hannover-Burgdorf er í áttunda sæti með 19 stig, eftir tvö töp í röð.

Teitur Örn Einarsson gerði eitt mark fyrir Flensburg í 34:24-heimasigri á Wetzlar. Flensburg hefur unnið þrjá leiki í röð, og er liðið í fimmta sæti með 26 stig, fimm stigum á eftir toppliði Füchse Berlín.

Lærisveinar Rúnars Sigtryggssonar máttu þola 22:28-tap á útivelli gegn Füchse í höfuðborginni. Viggó Kristjánsson skoraði þrjú mörk fyrir Leipzig. Liðið er í 11. sæti með 16 stig.

Þá vann Erlangen 31:28-heimasigur á Stuttgart. Ólafur Stefánsson er aðstoðarþjálfari Erlangen. Erlangen er í 10. sæti með 17 stig.