Þorvaldur Gissurarson
Þorvaldur Gissurarson
Verktakafyrirtækið ÞG Verk hefur selt ríflega 200 íbúðir í ár. Sé miðað við að meðalverð íbúðar sé 80 milljónir væri söluverðmætið um 16 milljarðar. Upplýsingar um söluna má finna í grafinu hér til hliðar

Verktakafyrirtækið ÞG Verk hefur selt ríflega 200 íbúðir í ár. Sé miðað við að meðalverð íbúðar sé 80 milljónir væri söluverðmætið um 16 milljarðar.

Upplýsingar um söluna má finna í grafinu hér til hliðar. Um er að ræða nýbyggingar nema hvað íbúðir á Hafnartorgi voru að hluta til leiguíbúðir í eigu félagsins.

Síðustu íbúðirnar á Maríugötu 34-40 í Urriðaholti seldust í ár en sala þeirra hófst í fyrra. Sama máli gegnir um fjórar síðustu íbúðirnar í Skektuvogi í Reykjavík.

Þá hóf ÞG Verk sölu íbúða í Sunnusmára í haust og hafa þar selst 27 af alls 165 íbúðum sem fyrirtækið mun setja þar í sölu.

Mikil sala í Vogabyggð

Allar íbúðirnar 34 í fjölbýlishúsinu Maríugötu 13-15 seldust í ár og í Arkarvogi seldi fyrirtækið 117 íbúðir.

Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG Verks, segir árið sem er að líða trúlega stærsta söluárið í sögu fyrirtækisins. Hann sé sáttur við söluna. „Við erum ánægð með niðurstöðuna og útkomuna,“ segir Þorvaldur.

Kostnaðarkúrfan mismunandi

Seðlabankinn hefur í sex skrefum hækkað vexti úr 2% í 6% í ár. Þá hefur verð á aðföngum hækkað vegna verðbólgu og áhrifa stríðsins í Úkraínu.

Spurður hvort arðsemin hafi farið minnkandi, eftir því sem leið á árið, segir Þorvaldur að hún sé samspil af byggingarkostnaði annars vegar og söluverðinu hins vegar.

„Byggingarkostnaður hefur verið að hækka allt árið og söluverðið líka, eða öllu heldur lengst af fram á haustið. Á sumum tímapunktum innan ársins hefur verðlagning íbúðanna hækkað hraðar og meira en byggingarkostnaðurinn og svo hefur það snúist við og jafnast í hina áttina, sérstaklega á seinni hluta ársins. Það er þó erfitt að segja nákvæmlega til um það og kostnaðarkúrfan á hverju verkefni er svo mismunandi eftir því á hvaða tímabili þorri íbúðanna var byggður,“ segir Þorvaldur.

Framlegðin muni minnka

Horfur séu á að framlegð af sölu nýrra íbúða verði minni á næsta ári en hún hafi verið í ár. Munurinn á milli kostnaðarverðs og söluverðs muni enda minnka.

Fyrirtækið muni á næsta ári setja á sölu tæplega 100 íbúðir í Kuggavogi í Vogabyggð en sala þeirra hefjist upp úr áramótum.

Með þeirri sölu og sölunni í Sunnusmára ljúki sölu fyrirtækisins á íbúðum í Vogabyggð og Smárabyggð og hefur fyrirtækið þá byggt og selt 500 íbúðir í þessum tveimur nýju hverfum.

Framundan sé svo meðal annars frekari uppbygging í Urriðaholtinu og í Hamranesinu í Hafnarfirði.

ÞG Verk er eitt umsvifamesta verktakafyrirtækið á höfuðborgarsvæðinu síðustu ár en til að setja 500 íbúðir í samhengi er gert ráð fyrir 690 íbúðum í Smárabyggð.