Una Sigurðardóttir fæddist í Reykjavík 12. ágúst 1929. Hún lést á Hrafnistu 16. desember 2022. Foreldrar Unu voru hjónin Sigríður Daníelsdóttir, f. 1903, d. 1996, og Sigurður Breiðfjörð Jónsson, f. 1902, d. 1976.

Systkini Unu eru Ingibjörg, f. 1928, d. 2021, Margrét, f. 1932, og Gunnar, f. 1938, d. 2004.

Eiginmaður Unu var Leifur Eiríksson, f. 2.4. 1928, d. 17.12. 2021. Foreldrar hans voru Eiríkur Matthías Þorsteinsson smiður og Ingibjörg Árnína Magdal Pálsdóttir (Bára) en hún lést ung að árum, aðeins 26 ára gömul árið 1936. Faðir Leifs lést árið 1984.

Börn Unu og Leifs: 1) Bára Leifsdóttir, f. 25. apríl 1949, giftist Stefáni H. Jónssyni f. 1943, d. 2020. Þau eiga þrjú börn: Jón Gunnar, Leif og Þórhildi Unu (d. júlí 2022), níu barnabörn og þrjú barnabarnabörn. 2) Ásta Leifsdóttir, f. 19. júlí 1951, giftist Sigurði Steingrímssyni, þau slitu samvistum. Þau eiga þrjú börn: Steingrím, Sigurð Breiðfjörð og Sigþór, tólf barnabörn og tvö barnabarnabörn. 3) Sigurður Leifsson, f. 9. maí 1955, giftist Hallfríði Ólafsdóttur. Þau eiga þrjú börn: Hildi, Unu Björk og Sigrúnu Ýri og sjö barnabörn. Eiríkur Leifsson, f. 21. janúar 1962.

Una ólst upp í Reykjavík en flutti svo síðar á Hlaðbrekku 19 í Kópavogi með eiginmanni sínum. Hún og Leifur byggðu sér hús á Hlaðbrekkunni þar sem þau bjuggu alla tíð. Leifur og Una giftust 1. júní 1950.

Útför Unu fer fram frá Hjallakirkju í Kópavogi í dag, 28. desember 2022, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku Una amma mín er farin í sumarlandið til afa. Það hafa orðið miklir fagnaðarfundir hjá þeim en þau höfðu verið gift í 71 ár. Alla tíð voru amma og afi mjög ástfangin og sá maður það þegar maður var í návist þeirra.

Við amma vorum alltaf miklar vinkonur enda vorum við líkar að mörgu leyti. Við tengdum mikið saman við það að vera fagurkerar og svo höfðum við mikinn áhuga á að vera fínar skvísur. Amma var alltaf mikil skvísa og var nánast alltaf í hælaskóm, með veski og fín til fara hvert sem hún fór, oftar en ekki endaði þó afi á að bera veskið fyrir sína konu.

Ég lærði að vera förðunarfræðingur 19 ára og bað amma mig stundum að farða sig. Afi hrósaði ömmu alltaf þegar ég var nýbúin að farða hana og sagði henni hvað hún væri sæt og falleg, að hún væri eins og þegar þau hefðu byrjað saman. Ég fór reglulega í Hlaðbrekkuna til ömmu og afa og litaði ég þá alltaf augabrúnirnar á ömmu. Eitt árið fór ég í microblade tattoo á augabrúnum, þegar amma frétti af því vildi hún ólm komast í það líka og fór ég með henni í það, þá var hún 86 ára skvísa.

Ég er yngsta barnabarn ömmu og afa og naut góðs af því, amma sýndi mér mikla ást og umhyggju auk þess að dekra við mig. Amma og afi fóru mikið til útlanda og alltaf kom amma heim með eitthvað skvísulegt og gaf mér, t.d. ilmvötn, skart og föt, hún var mjög gjafmild, og átti ég orðið mjög mikið af ilmvötnum á tímabili.

Amma var mikil handavinnukona og eiga flestir afkomendur hennar t.d. veggteppi eftir hana. Hún var mjög klár, ákveðin og lét ekki vaða yfir sig. Hún var sterkur karakter og ekki fyrir að skafa af hlutunum, hún var hreinskilin og fannst að fólk ætti að vera duglegt. Hún hvatti mig til að finna mér almennilegan mann, ekki einhvern aumingja. Ég var því fegin þegar hún kynntist manninum mínum og að henni féll mjög vel við hann.

Amma var mér alltaf góð og var yndislegt að vera hjá þeim í Hlaðbrekkunni. Við fjölskyldan vorum mikið með ömmu og afa í sumarbústaðnum þeirra og á ég yndislegar minningar þaðan. Þau ásamt Eiríki voru öll jól hjá okkur sem er dýrmætt.

Elsku amma mín, ég er svo þakklát fyrir þig og hve mikla vinkonu ég átti í þér.

Þín sonardóttir,

Sigrún Ýr.