Kristinn Björgvin Sigurðsson fæddist í Reykjavík 14. júní 1926. Hann lést 19. desember 2022.

Foreldrar Kristins voru Dagný Níelsdóttir, f. 14. nóvember 1885 á Stóra-Múla, Saurbæjarhreppi í Dalasýslu, d. 28. febrúar 1971, og Sigurður Brynjólfsson, f. 4. júní 1885 á Stærribæ, Grímsneshreppi í Árnessýslu, d. 6. janúar 1970. Þau áttu fjögur börn auk Kristins. Harald Snæland, f. 15. febrúar 1914, d. 14. júní 1996, Bryndísi, f. 2. mars 1917, d. 16. maí 2007, Sigurborgu, f. 16. janúar 1920, d. 17. febrúar 2012, og Sigurð Ragnar, f. 19. desember 1922, d. 10. janúar 1984.

Kristinn kvæntist eiginkonu sinni Auði Guðmundsdóttur 7. nóvember 1947. Hún var fædd 23. nóvember 1924, d. 4. janúar 2014. Hún var dóttir Sesselju Friðriksdóttur, f. 3. júní 1900, d. 11. mars 1981, og Guðmundar Runólfssonar f. 30. desember 1899, d. 3. september 1956.

Þau áttu þrjá syni. Þeir eru: 1) Gylfi, f. 7. mars 1950, kvæntur Jónínu Völu Kristinsdóttur. Börn þeirra eru: a) Margrét Vala gift Stefáni Loga Sigurþórssyni. Synir þeirra eru Róbert Gylfi, Tómas Diðrik og Símon Böðvar. b) Kristinn Björgvin kvæntur Ebbu Kristínu Baldvinsdóttur. Synir þeirra eru Kolbeinn Viðar og Matthías Baldvin. c) Auður Sesselja gift Inga Þór Reynissyni. Dóttir þeirra er Jónína Vala. 2) Hilmar, f. 9. febrúar 1959, kvæntur Margréti Hauksdóttur. Dætur þeirra eru a) Hildur Ýr í sambúð með Emil Hjaltasyni. Dóttir þeirra er Bryndís Björk, b) Íris Björk í sambúð með Daníel Hrafni Magnússyni. Sonur þeirra er Anton Hilmar. 3) Snorri, f. 28. ágúst 1962, kvæntur Kristjönu Kristjánsdóttur. Börn þeirra eru a) Agnes Ósk í sambúð með Joshua Daniel Guðsteinssyni. Synir þeirra eru Dagur Guðsteinn og Brynjar Snorri og b) Kristján Björn í sambúð með Yrsu Ásgeirsdóttur.

Kristinn hóf nám í Prentsmiðju Jóns Helgasonar 14. júní 1940. Lauk þar námi og tók sveinspróf í setningu 14. apríl 1946. Hann vann í Prentsmiðju Jóns Helgasonar til ársins 1950. Um sumarið réðist hann til Alþýðuprentsmiðjunnar við Vitastíg, en vann jafnframt við Alþýðublaðið sem var til húsa við Hverfisgötu. Í janúar 1946 eignaðist blaðið sjálft þann hluta sem var við Hverfisgötuna og nefndi hann Prentsmiðju Alþýðublaðsins. Kristinn var þar prentsmiðjustjóri til ársins 1966. Það ár réðist hann til Prentsmiðjunnar Eddu og var þar verkstjóri til ársins 1981. Fór þá að vinna við verslunarstörf hjá Harðviðarvali og vann þar til ársins 1995 er hann hætti störfum.

Útför Kristins fer fram frá Seltjarnarneskirkju í dag, 28. desember 2022, klukkan 13.

Rúm hálf öld er liðin síðan ég kynntist tengdaforeldrum mínum, þeim Kristni og Auði. Kristinn var þá verkstjóri í prentsmiðjunni Eddu en hann starfaði við prentverk í 40 ár og síðar við verslunarstörf. Þau Auður höfðu búið sér og sonum sínum myndarheimili að Unnarbraut 7 á Seltjarnarnesi og þar var alltaf tekið vel á móti mér. Tvö eldri börnin okkar Gylfa voru í áratug einu barnabörnin þeirra og urðu strax sannkallaðir sólargeislar í lífi þeirra. Sérstakir kærleikar voru á milli þeirra alnafnanna, Kristins Björgvins eldri og yngri, sem héldust fram til síðasta dags þó svo þeir hafi lengi búið sinn í hvoru landinu. Þá auðveldaði tæknin þeim samskiptin og Kristinn yngri sá til þess að afi hans gæti nýtt sér nýjustu tækni á sviði fjarskipta. Það kom sér vel fyrir Kristinn eldri að geta nýtt sér fjarsamskipti á meðan Covid faraldurinn gekk yfir. Hann var duglegur að tileinka sér þau og taka þátt í samskiptum við fjölskylduna, bæði við einstaklinga og á fjölskyldufundum.

Þegar barnabörnunum fjölgaði glöddust þau hjónin yfir hverju nýju barni og nutu þau öll ástríkis og umhyggju þeirra. Kristinn var einstaklega duglegur við að snúast í kringum börnin, sækja og keyra, þegar kallað var. Sælureitur þeirra hjóna á Kjalarnesi var sérstaklega vinsæll hjá yngri kynslóðinni og voru ófá skiptin sem þau tóku börnin með sér þangað. Þar fengu þau tækifæri til að leika sér við frændsystkini sín og kynntust því vel. Börnin nutu þess að taka þátt í ræktunarstörfum með ömmu sinni og afa. Kristinn var ötull við að miðla þeim fróðleik um náttúruna og margt fleira sem hann sjálfur hafði áhuga á. Það var ánægjulegt að fylgjast með þeirri natni sem hann sýndi börnunum og hvernig hann lagði sig eftir að kynnast hverju og einu og styðja þau til þroska og náms.

Þegar við Gylfi bjuggum í Svíþjóð og síðar í Belgíu voru þau hjónin dugleg að heimsækja okkur og var alltaf mikil eftirvænting hjá börnunum þegar von var á þeim. Kristinn var duglegur að sinna þeim og minnistætt er þegar hann studdi elsta barnabarnið, Margréti, við að læra að hjóla. Hann gafst ekki upp fyrr en hún náði tökum á listinni og sveif um á hjólinu í stúdentahverfinu í Uppsölum. Yngri dóttirin, Auður, naut þess að sýna afa sínum og ömmu heimkynni okkar í Brussel og sýndi Kristinn sérstakan áhuga á að kynnast skólanum hennar.

Kristinn eignaðist tíu langafabörn, fagnaði hverju þeirra og naut þess að hafa þau nálægt sér. Að leiðarlokum þakka ég Kristni fyrir ánægjulega samfylgd og vináttu.

Jónína Vala

Kristinsdóttir.

Ég hef alltaf verið algjör afastelpa og það er erfitt að hugsa til þess að ég muni aldrei getað knúsað afa og spjallað við hann aftur. Afi var besti afi í heimi og verð ég ævinlega þakklát fyrir samband okkar.

Afi var alltaf til staðar fyrir mig. Þegar Oliver, hundurinn minn, dó þá var afi fyrstur að mæta á svæðið og gefa mér knús. Hann mætti á alla píanótónleika og hjálpaði mér með heimanám. Hann heyrði í mér daglega þegar ég var veik til að athuga hvort ég væri ekki örugglega að hressast og bauðst alltaf til að koma með mat til mín. Þegar eitthvað spennandi var að gerast í lífi mínu hlakkaði ég alltaf til þess að deila því með afa. Hann var mín helsta klappstýra og hafði óbilandi trú á mér.

Ég var heppin að afi og amma bjuggu við hliðina á grunnskólanum mínum og ég gat því alltaf labbað til þeirra eftir skóla og fengið kókó og ristað brauð. Við afi vorum dugleg að spila og var olsen olsen í miklu uppáhaldi hjá okkur. Einnig áttum við það til að semja vísur og skrifa smásögur í tölvunni hans.

Ég er þakklát fyrir það að afi fékk að kynnast syni mínum, Antoni Hilmari. Hann gat setið í fanginu hjá langafa sínum tímunum saman og spjallað. Það eru minningar sem munu ylja mér um ókomna tíð.

Söknuðurinn er sár en minningarnar sem ég á um afa munu lifa hjá mér að eilífu.

Íris Björk

Hilmarsdóttir.

Elsku afi minn, nú er víst komið að því að ég verði að kveðja þig. Þrátt fyrir að ég kveðji þig með söknuð í hjarta og tár í augum þá er það fyrst og fremst ómælt þakklæti sem situr eftir. Takk fyrir að vera ávallt til staðar fyrir mig, takk fyrir allar góðu stundirnar og samræðurnar, takk fyrir alla þolinmæðina, takk fyrir alla umhyggjuna og takk fyrir að vera svona frábær fyrirmynd. Þvílík forréttindi að þú ert afi minn!

Ég mun sakna þín en ég veit samt að þú munt alltaf vera með mér.

Þín

Hildur.

Þegar karlsvagninum bregður fyrir á heiðum stjörnuhimni minnist ég alls þess sem afi kenndi mér. Honum fannst sjálfsagt að lítill snáði fylgdi með og lærði allt frá stjörnufræði til girðingavinnu. Þær ótal stundir sem ég fékk að eyða með afa og ömmu á Unnarbrautinni, á Kjalarnesinu og á ferð um landið voru uppspretta fróðleiks og reynslu, svo þegar kom að lífsþrautum eins og bílprófi, byggingaframkvæmdum eða sósugerð leystust þær fyrirhafnarlaust. Natni og þolinmæði afa við okkur barnabörnin reyndist verðmæt gjöf og verður okkur til fyrirmyndar.

Takk fyrir mig.

Kristinn Björgvin.