Steinunn Ásta Björnsdóttir fæddist í Reykjavík 20. október 1948. Hún lést 14. desember 2022 á Landspítalanum í Fossvogi.

Foreldrar hennar voru Björn Jónsson yfirflugumferðarstjóri, f. 25.1. 1915, d. 21.3. 1995, og María Hafliðadóttir húsmóðir, f. 6.1. 1920, d. 12.1. 1999. Systkini Steinunnar eru: Hafliði Örn, f. 2.6. 1941, Hilmar Þór, f. 28.8. 1945, og Birna, f. 18.8. 1956.

Steinunn giftist 16.8. 1986 Jóni Frímanni Eiríkssyni, f. 26.5. 1942. Dóttir þeirra er Anna María, f. 20.9. 1979, sambýlismaður hennar er Christian Hansen, f. 13.5. 1978. Synir þeirra eru Emil Frimann, f. 13.4. 2012, og Oliver Frimann, f. 7.3. 2015.

Í bernsku bjó Steinunn á Þórsgötu, á Keflavíkurflugvelli, á Hverfisgötu og á Dunhaga, þar til hún flutti ásamt foreldrum sínum og systur til Frakklands og bjó þar á unglingsárunum. Steinunn gekk í Austurbæjarskóla, Melaskóla, Hagaskóla og Varmárskóla.

Steinunn vann við afgreiðslu í Tómstundabúðinni, sem þjónn í Glaumbæ og Klúbbnum samhliða skrifstofustarfi hjá Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar. Lengst af vann hún hjá Íslenska álfélaginu í Straumsvík (nú Rio Tinto á Íslandi) á verkáætlanadeild, síðan á tæknisviði, frá 1973 til 2014, og náði því 40 ára starfsaldri. Steinunn hefur verið í stjórn í klúbbum innan Starfsmannafélags ISAL, m.a. ljósmyndaklúbbnum, pöntunarfélaginu og tvisvar í stjórn steinasafnaraklúbbsins.

Eftir að Steinunn greindist með MND gerðist hún félagsmaður í MND-félaginu og var um tíma í stjórn félagsins.

Útförin fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 28. desember 2022, klukkan 13.

Í dag kveðjum við ástkæra systur mína, Steinunni Ástu.

Það voru átta ár á milli okkar, hún var stóra systir mín. Átta ár eru mörg ár þegar maður er barn, en eftir því sem við eltumst virtist aldursmunurinn sama sem enginn. Aðaláhugamálin okkar voru þau sömu; börnin, barnabörnin, fjölskyldan, ferðalög, garðarnir okkar beggja og fleira.

Við systur giftum okkur á sama degi, í ágústmánuði árið 1986. Þetta var sameiginlegt brúðkaup í Hallgrímskirkju, sem þá var ekki fullbyggð. Steinunn fékk hann Jón sinn og ég fékk minn Steen. Veislan var haldin hjá foreldrum okkar á Laugateigi og svo var matarboð fyrir þá nánustu um kvöldið. Þetta var í fyrsta skiptið sem við systur skipulögðum eitthvað stórt saman. Mér er sérstaklega minnisstætt hvað við vorum sammála í öllu varðandi brúðkaupið, enda var Steinunn alltaf mjög lausnamiðuð og alltaf tilbúin að leysa þau vandamál sem upp komu.

Hún var skipulögð, og skrifaði allar ákvarðanir niður svo að engu yrði gleymt. Dagurinn okkar systra var yndislegur, og við höfum oft minnst hans með mikilli gleði, ásamt eiginmönnum okkar.

Ég og fjölskyldan mín höfum margoft gist á fallegu heimili Steinunnar og Jóns þegar við höfum verið í heimsókn á Íslandi. Þar ríkti ró, næði og kærleikur. Þótt hún hafi barist við MND-sjúkdóminn síðustu árin buðu þau Jón okkur alltaf velkomin á heimili sitt hvenær sem var; á jólum, páskum, sumrum og vetrum.

Steinunn var blíð í fasi, brosmild og jákvæð. Þótt MND-sjúkdómurinn hrjáði hana mikið síðustu árin kvartaði hún aldrei en brosti alltaf þegar við komum til hennar.

Elsku systir. Þú ert ekki lengur hér hjá okkur, en þú munt lifa áfram í hjarta mínu þar sem ég mun bera minningarnar með mér hvert sem ég fer það sem eftir er af lífi mínu.

Þín systir,

Birna.

Þegar Steinunn Ásta, systir okkar og mágkona, greindist með MND-sjúkdóminn fyrir tæpum níu árum ákvað hún að taka sér tíma og reyna að átta sig á ástandi sínu og framtíðinni og ná sátt við sjúkdóminn áður en hún segði sínum nánustu. Hún vissi að MND átti eftir að verða henni samferða það sem eftir lifði. Hún tók þessum örlögum sínum af miklu æðruleysi og lærði að lifa með sjúkdómnum. Hún vissi að þessi sjúkdómur væri einhver sá versti sem til væri og engin von um bata. Það var bara spurning um tíma. Steinunn hafði með einhverjum óskiljanlegum hætti tekið sjúkdóminn í sátt og þau leiddust hönd í hönd áfram þar til yfir lauk. Við urðum aldrei vör við að hún kvartaði eða vorkenndi sér eða að henni leiddist lífið. Þetta var aðdáunarverð afstaða og okkur hinum óskiljanleg, en til fyrirmyndar.

Hún hélt sínu glaða skapi en breyttist úr hógværri konu í mikinn baráttumann um málefni fatlaðra. Hún beitti sér fyrir réttindum og hagsmunum fatlaðra og náði umtalsverðum árangri með félögum sínum í MND-félaginu þar sem hún sat í stjórn til nánast hinstu stundar, sótti fundi hér á landi og víða erlendis.

Steinunn Ásta lést hinn 14. desember sl. eftir níu ára vonlausa baráttu. MND-sjúkdómurinn herjar á taugakerfi líkamans sem allt lamast hægt og rólega þar til heilinn er einn eftir. Síðustu misseri var nánast eina samband Steinunnar um sérstaka tölvu sem hún stjórnaði af mikilli færni með augunum einum. Skrollaði og þysjaði út og inn. Fletti dagblöðum og fylgdist með á Facebook. Aðeins fáum klukkustundum áður en hún lokaði augunum í síðasta sinn skrifaði hún okkur systkinunum kærleiksfullan tölvupóst þar sem hún sagði okkur hug sinn allan.

Steinunn vann skrifstofustörf allan sinn starfsaldur. Fyrst hjá Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar og síðustu áratugi sem ritari á tæknideild ÍSAL í Straumsvík.

Steinunn var heimskona sem hafði búið í Frakklandi ásamt foreldrum sínum um tíma og ferðaðist víða um lönd með eiginmanni sínum og dóttur. Hún vann hluta árs á samyrkjubúi í Ísrael sem varð nokkuð endasleppt þegar hún þurfti að flýja vegna stríðsins þar í landi árið 1973. Hún var mikil fjölskyldumanneskja og kom sér upp húsi á uppeldisslóðum forfeðranna í Flatey á Breiðafirði ásamt frændgarðinum. Þar undi hún sér afskaplega vel meðan heilsan leyfði.

Steinunn var dagfarsprúð og hafði hógværa og ljúfa skapgerð og háttvís sem best var hægt að hugsa sér. Góðviljuð og kom alls staðar fram til fyrirmyndar þar sem hún mátti því við koma enda vinsæl og vandræðalaus. Gekk varlega fram, en af mikilli festu. Hafði sterka sýn á veruleikann og framtíðina.

Elsku Steinunn, hvíl þú í friði og þakka þér fyrir allar góðu minningarnar og þann reynsluheim sem þú færðir okkur og sannfæringuna um að hamingjuna er einungis að finna í hjarta hvers og eins. Við munum sakna þín og vottum Jóni Frímann, Önnu Maríu og fjölskyldu okkar dýpstu samúð og lýsum aðdáun á framgöngu þeirra á þeim erfiða tíma sem á undan er genginn.

Svanhildur Sigurðardóttir,

Hilmar Þór Björnsson.

Ótal minningar renna í gegnum hugann nú þegar Steinunn Ásta föðursystir mín hefur kvatt þessa jarðvist. Þetta eru minningar sem rifjast reyndar oft upp en meira nú en áður. Þessar minningar eru hlýjar og gleðilegar.

Steinunn frænka var skemmtileg kona og góð mamma. Uppátækjasöm og blíð. Mamma sem gott er að taka sér til fyrirmyndar. Við Anna María, dóttir hennar og Jóns Frímanns, lékum okkur mikið saman sem börn. Á heimilum hvor annarrar og hjá ömmu Maju og afa Bjössa á Laugateigi. Feluleikur, bannað að snerta gólf, kleppari, hollinn-skollinn, snú-snú inn í bleika sumarnótt og eltingaleikur fram að háttatíma. Steinunni frænku var sama þótt við drösluðum til svo lengi sem við gengjum á endanum frá eftir okkur. Hún leyfði okkur að hafa hátt meðan það truflaði engan sem ekki þoldi það. Við máttum hlaupa um inni og hlæja okkur máttlausar. Við fengum að vera börn. Máttum lita okkur gular í framan með fíflum, hoppa í pollum og koma drulluskítugar heim. Þá skipaði hún okkur að fara í bað og hrein föt meðan hún hitaði kakó. Svo fléttaði hún á okkur hárið og hló inni í sér. Það var svo gott. Steinunn var ströng í stóru atriðunum en brosti yfir öllu öðru. Við litlu skottin föttuðum alveg hverjar reglurnar voru. Þetta er jafnvægislist sem bestu uppalendur tileinka sér og Steinunn frænka var meistari í. Það var eins og hún skildi svo vel hvað ærslaleikur barna er skemmtilegur, mikilvægur og hvað barnæskan er undur fljót að líða.

Steinunn var blíð og traust og á heimili þeirra hjóna var afslappað og gott andrúmsloft. Skemmtilegast af öllu var þegar við Anna María fengum að gista saman. Við suðuðum oft í foreldrum okkar í helgarkaffinu þar sem fjölskyldan kom saman hjá ömmu og afa um það og fengum stundum jákvætt svar. Það var best. Við skríktum og hoppuðum af kæti. Steinunn og Jón leyfðu okkur að vaka aðeins lengur og spila kleppara uppi í rúmi. Svo fengum við Cocoa Puffs í morgunmat. Þau voru með áskrift að Stöð 2 sem var glæný og fáir höfðu. Við gátum vaknað og horft á Örn Árnason sem Afa í morgunsjónvarpinu á náttfötunum um helgar og graðgað í okkur Cocoa Puffs með nýmjólk. Steinunn og Jón áttu heima í Austurbergi í Breiðholti þegar við Anna María vorum litlar. Þar var róluvöllur í garðinum og við renndum okkur á fleygiferð niður stigaganginn á handriðinu. Seinna bjuggu þau í Logafold í Grafarvogi sem var að byggjast upp og var mikið ævintýraland. Ég brosi alltaf þegar ég á leið um þessi hverfi. Steinunn tókst á við veikindi sín, MND-sjúkdóminn, með aðdáunarverðum hætti. Alltaf jákvæð og brosandi með blik í auga. Þótt líkami hennar lamaðist hægt og rólega yfir níu ára skeið og engin lækning fyrir hendi var Steinunn frænka alltaf í jafnvægi og blíð og brosandi. Tillitssemi hennar gagnvart litlu frænkunum sem hoppuðu fullar af orku í rúmum hennar og sófum áratugum áður kalla fram kærleikstár hjá öllum sem gera sér grein fyrir þeim alvarlega sjúkdómi sem hún þurfti að eiga við. Föst í eigin líkama. En Steinunn frænka var alltaf frjáls inni í sér. Sönn hetja.

Ég mun varðveita allar góðu minningarnar um Steinunni frænku, og verma mér við þær til æviloka.

Hjartans bestu samúðarkveður til Jóns Frímanns, Önnu Maríu, Christians og drengjanna þeirra.

Hvíl í fríði elsku frænka.

María Sigrún

Hilmarsdóttir.