Þóranna Brynjólfsdóttir fæddist á Reyni í Mýrdal 11. ágúst 1926. Hún lést 19. desember 2022 á Hrafnistu við Brúnaveg.

Foreldrar hennar voru Áslaug Vigfúsdóttir frá Heiðarseli á Síðu og Brynjólfur Einarsson frá Reyni í Mýrdal. Systkini hennar voru: Sigurður, d. 1998, Einar, d. 2017, Sigfús, d. 2022, Sigríður, d. 2000, Ólafur Siggeir, d. 1932, og Sigrún Ólöf, d. 1934. Vilborg Ragnhildur lifir systkini sín.

Þóranna giftist Gísla Brynjólfssyni bifreiðastjóra 5. nóvember 1955. Börn þeirra eru: 1) Guðrún, prófessor í landfræði við Háskóla Íslands. Sonur Freyr Tómasson hagfræðingur, eiginkona Erna Einarsdóttir hönnuður, dætur Salka og Yrsa. 2) Sigurður Reynir, rannsóknaprófessor í jarðefnafræði við Háskóla Íslands, eiginkona Málfríður Klara Kristiansen arkitekt, börn Anna Diljá upplýsingahönnuður og Birnir Jón sviðslistamaður og rithöfundur, sambýliskona Hallveig Kristín Eiríksdóttir sviðslistakona og leikmyndahönnuður. 3) Áslaug, landfræðingur og jarðfræðikennari við Fjölbrautskólann í Breiðholti, eiginmaður Þórður Kr. Jóhannesson viðskiptafræðingur, börn Kristín Rut hjúkrunarfræðingur, eiginmaður Kjartan Guðmundsson líffræðingur, börn Una Katrín og Freyja. Gísli Þór tölvunarfræðingur, sambýliskona Anna Þuríður Pálsdóttir hagfræðingur.

Þóranna fluttist nokkurra mánaða gömul í Hjörleifshöfða á Mýrdalssandi ásamt foreldrum og Sigurði elsta bróður sínum. Þar fæddust Einar, Sigfús og Sigríður en fjölskyldan fór úr Höfðanum 1930. Fjölskyldan hafði stutta viðkomu á Suður-Götum í Mýrdal þar sem Vilborg fæddist og fluttu síðan að Dyrhólum í Mýrdal 1931 þar til foreldrar hennar fluttu til Reykjavíkur 1950.

Þóranna gekk í barnaskóla í Litla-Hvammi og aðstoðaði við búskapinn á Dyrhólum. Hún fór síðar í húsmæðraskólann á Laugalandi í Eyjafirði 1950-51. Þar naut hún sín vel, eignaðist vinkonur fyrir lífstíð, nam hússtjórnun, matreiðslu og lærði á skíði. Á lífsleiðinni fékkst hún við ýmis störf í nærsveitum, á Austfjörðum og loks í Reykjavík. Frá 1976 til 1996 vann hún sem aðstoðarmaður á Landspítalanum, auk húsmóðurstarfa.

Gísli og Þóranna gengu í byggingarsamvinnufélag ungra framsóknarmanna, sem reisti fjölbýlishús í Bogahlíð 12-18. Þar bjuggu þau í skemmtilegu samfélagi ungra foreldra með börnin sín þrjú. Vorið 1968 byggðu þau einbýlishúsið í Fornastekk 13 í Breiðholti og voru ein af frumbýlingunum þar. Síðar fluttu þau í Árskóga 6. Þóranna bjó þar áfram eftir að Gísli dó 2008, þar til hún flutti á Hrafnistu fyrir fimm árum.

Útför Þórönnu fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 28. desember 2022, klukkan 13.

Mamma var nokkurra mánaða gömul þegar hún flutti í Hjörleifshöfða, brimbrjót Kötluhlaupa á Mýrdalssandi. Frá reisulegum bænum var stórkostlegt útsýni á haf út og vestur Sand. Ein sterkasta minning mömmu úr Höfðanum var þegar afi, sem var sigmaður, var dreginn upp á brún með blómvönd handa mömmu í hendinni. Í Höfðanum fæddust Einar og Sigfús, báðir á miðju sumri, og svo Sigríður rétt fyrir jól 1929. Þegar stefndi í fæðingu Vilborgar seint í desember 1930 var þrýst á ungu hjónin að flytja til „byggða“ áður en skammdegið skylli á. Þá voru aðeins 12 ár frá Kötlugosi og ferðalög um sandinn uggvænleg fyrir ljósmóðir og héraðslækni. Fjölskyldan hafði stutta viðkomu á Suður-Götum í Mýrdal þar sem Vilborg fæddist og hófu þau síðan búskap á Dyrhólum í Mýrdal 1931. Þar lærði mamma að klifra og upplifði önnur ævintýri. Þegar hún stálpaðist réð hún sig sem matráðskonu í símavinnuflokk. Eitt kvöldið voru strákarnir að æfa sig í skotfimi og mamma fékk að prufa. Einn strákanna benti þá á símavírskúluna á næsta símastaur. Hún smellhitti og strákurinn varð að gjöra svo vel að spenna á sig klifurlykkjurnar og hengja símalínuna upp á ný. Hún vann svo um tíma á hótelinu í Vík og klifraði oft upp á fjallið Höttu áður en hún fór í vinnuna. Seinna fór mamma í vinnu austur á firði þar sem hún gekk í Æskulýðsfylkinguna til að komast á ball í Neskaupstað. Það kom henni í koll áratugum síðar þegar hún og pabbi ætluðu að heimsækja Sigga til Bandaríkjanna. Hún var í vandræðum með að fá vegabréfsáritun því hún var skráð sem kommúnisti í skjölum bandaríska sendiráðsins í Reykjavík vegna Neskaupstaðarballsins.

Mamma var meistarakokkur, ræktaði sitt grænmeti sjálf, tíndi ber, saftaði og sultaði. Hún leiðbeindi okkur með heimanámið og kærar eru minningarnar um Skólaljóðin sem við lásum og sungum saman. Mömmu langaði alltaf að læra meira, en tækifærin gáfust ekki og metnaður hennar var mikill fyrir hönd okkar systkinanna. Mamma og pabbi byggðu sælureit í Fornastekk 13. Þar verpti skógarþröstur í birkinu við svefnherbergisgluggann þeirra, og mamma spilaði fótbolta við barnabörnin á stóru flötinni sunnan megin. Frey, elsta barnabarninu, fannst það engin afsökun þótt mamma væri hælbrotin og í gifsi eitt sumarið, „... hún gæti alla vega verið í marki“.

Þegar mamma og pabbi voru komin á sjötugsaldurinn seldu þau húsið í Fornastekk og keyptu íbúð á 12. hæð í Árskógum í Breiðholti. Þar var gott að vera, mamma fór á gönguskíði á ÍR-vellinum, gekk iðulega upp hæðirnar tólf sér til heilsubótar þegar enginn sá, og stalst til að gefa hröfnunum afgangs sláturvambir. Mamma varð lögblind en fór þó samt gangandi í verslunarleiðangra í Mjóddina, þar sem starfsfólkið hjálpaði henni með innkaupin. Loks, rúmlega níræð, komst hún inn á Hrafnistu þar sem vel var að henni hlúð.

Mamma var kjarkmikil en undurblíð kona, allt fram á síðustu stundu.

Sigurður Reynir,

Guðrún og Áslaug.

Þóranna var glæsileg kona, skvísa til hinsta dags og hafði áhrif á marga með gæsku sinni og gáfum. Ég kynntist henni fyrir um 40 árum þegar við Siggi fórum að draga okkur saman og ég gisti endrum og eins í Fornastekk í fríum, en við vorum þá við nám hvort sínum megin við Atlantshafið. Það var gott að koma heim til Gísla og Önnu, viðmótið var afslappað og ég fann mig velkomna.

Þóranna var fluggreind, en löng skólaganga stóð ekki til boða. Hún fór hins vegar í Húsmæðraskólann á Laugalandi, og hefur greinilega lært allt sem mögulegt var þar á þessum eina vetri. Hún var algjör fyrirmynd hvað varðaði sjálfbærni og lýðheilsu, nýtin, vel að sér í næringarfræði, ræktaði grænmeti, eldaði allan mat frá grunni, útilegunaslið var smörrebröd, bakaði epískar tertur, var dugleg að hreyfa sig og þegar hún komst ekki í Bláfjöll tók hún bara gönguskíðin sín út á túnið í Suður-Mjódd og gekk þar. Krakkarnir hennar urðu allir náttúrufræðingar og er ég viss um að það voru áhrif frá Önnu, bændadóttirin kunni á náttúruna, þekkti fugla og blóm og á meðan hún bjó í eigin húsnæði nutu smáfuglar og hrafnar veitinga þegar jarðbönn voru. Anna hafði góðan húmor, tók vel eftir ýmsu spaugilegu, en fór fínt með, enda alltaf kurteis og tillitssöm, stundum of fannst mér, en kannski skildi ég bara ekki alltaf skaftfellskuna hennar. Eftir að við Siggi eignuðumst krakkana aðstoðaði hún okkur þegar þörf var á og skemmti sér oft vel yfir uppátækjum og tilsvörum þeirra. Þrátt fyrir alla hennar reynslu gaf hún mér bara eitt uppeldisráð: Vertu góð við börnin þín, ráð sem rúmar í raun allt.

Minningar um nærandi samverustundir eru margar og ég þakka tengdamömmu samfylgdina af öllu hjarta.

Málfríður Klara.