Egill „Umfjöllunarefni bókarinnar er áhugavert,“ segir gagnrýnandinn.
Egill „Umfjöllunarefni bókarinnar er áhugavert,“ segir gagnrýnandinn. — Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ljóð Sjófuglinn ★★★·· Eftir Egil Ólafsson. Bjartur 2022. Innb. 104 bls.

Bækur

Ingibjörg Iða Auðunardóttir

Egill Ólafsson, höfundur ljóðabókarinnar Sjófuglsins er þekktari á sviði tónlistar og kvikmynda en ljóða. Líkt og segir í eftirmála bókarinnar er textinn ritaður við dánarbeð föður höfundar og er verkið því hugljúfur óður um lífshlaup hans. Faðir Egils hafði marga fjöruna sopið; hann var dyggur sjómaður og því gjarnan kallaður Sjófuglinn. Óhætt er að segja að hann hafi upplifað ýmsa erfiðleika, til að mynda framan af, þegar hann vann mikla erfiðisvinnu í seinna stríðinu og þegar hann þurfti að horfa á eftir mörgum vinum sínum í gröfina af völdum berkla, en sjálfur glímdi hann við alvarlega berklaveiki. Fagurblá kápa bókarinnar, með útlínum fjalltindanna, endurspeglar náttúrufegurðina sem vinnur með og gegn Sjófuglinum samtímis — hann er hafið og hafið er hann. Hann þekkir einungis það að vera sjómaður sem er hans lifibrauð og ævistarf. Líkt og skipið á miðju hafi, frammi fyrir sjóndeildarhringnum, vagga ljóðlínur verksins um á miðri blaðsíðu, sem teljast má óvenjulegt miðað við flestar ljóðabækur. Gagnrýnanda finnst það þó áhugaverð nálgun sem auðgar merkingarsvið bókarinnar. Kápan orkar því eins og hafið sem fjöllin umlykja og á hafinu leynist báturinn og sjómaðurinn sem lesandi fylgist með.

Umfjöllunarefni bókarinnar er áhugavert, en þó verður að segjast að höfundur er ekki að finna upp hjólið í umfjöllun sinni. Raunir sjómannsins og saga Íslands eru þekkt stef en eins og góður maður sagði eitt sinn, þá er góð vísa aldrei of oft kveðin. Umfjöllunarefnið er því ágætt, en framkvæmdin hefði þó mátt vera betri.

Til að byrja með eru ljóðin nokkuð yfirborðskennd og skortir rými til túlkunar. Þetta merkingarhyldýpi, sem sjórinn býður upp á, tapast þegar ekki er farið dýpra í eðli mannsins og fortíðar hans og uppi stendur einfaldur texti sem skilur lítið eftir sig. Tenging mannsins, og auk þess sjómannsins og hins almenna Íslendings, við hafið er ótvíræð og sterk og hefur verið áberandi í verkum skálda hérlendis frá örófi alda. Tenging tímans við vatnið, tímans við æviskeið mannsins, tímans við lifibrauð mannsins, allt þetta hefði mátt tengja betur við verk höfundar til að styrkja stoðir verksins. Verk byggjast alla jafna á textatengslum, það er að segja að þau tengjast öðrum verkum sem á undan þeim komu. Það er því vankantur á ef hvorki tekst að tengja verkið inn í bókmennta- og ljóðahefðina, né að það skapi sér nýjan sess innan flórunnar. Eftir stendur ágætt umfjöllunarefni á brigðulum framkvæmdarstólpum sem segja má að bresti undan þyngd textans. Þrátt fyrir að textinn sé nátengdur hafinu flæðir hann illa — hann býr yfir lítilli sem engri hrynjandi sem brestur þegar hann tekur loks af stað. Taktfastur dynur aldanna er svo sterkt einkenni hafsins og veltir gagnrýnandi fyrir sér hvort það hefði ekki verið merkingaraukandi að hafa hrynjandina jafna og taktfasta líkt og öldunið hafsins. Ljóðin verkuðu á undirritaða sem sundurslitin og taktlaus, sem gerði lesturinn dálítið erfiðan á köflum.

Það má því segja að framkvæmd verksins geri það að verkum að fallegur þráður þess glatast eilítið. Þess hefði verið óskandi að höfundur hefði annað hvort haldið sig nær hefðinni eða slitið sig betur frá henni — úr verður eins konar millibilsástand sem hittir ekki alveg í mark hjá gagnrýnanda. Þó ber að hrósa myndunum sem Egill dregur upp af íslensku samfélagi og sambandi hans við föður sinn. Lesandinn finnur vel fyrir nístandi tilfinningum skáldsins og sorginni sem sameinast hafinu og eru það helstu þættirnir sem standa upp úr í annars þokkalegu verki.