Öskur Kylian Mbappé kallar fram öskur.
Öskur Kylian Mbappé kallar fram öskur.
Nú er heimsmeistaramótið í Katar búið og enski boltinn loksins kominn aftur á dagskrá. Því ber sannarlega að fagna, en það er eitt sem lýsendur enska boltans hér á Íslandi mættu taka sér til fyrirmyndar hjá lýsendum ríkissjónvarpsins á meðan HM stóð yfir

Sonja Sif Þórólfsdóttir

Nú er heimsmeistaramótið í Katar búið og enski boltinn loksins kominn aftur á dagskrá. Því ber sannarlega að fagna, en það er eitt sem lýsendur enska boltans hér á Íslandi mættu taka sér til fyrirmyndar hjá lýsendum ríkissjónvarpsins á meðan HM stóð yfir. Það er að öskra almennilega þegar mörk eru skoruð. Þannig er mál með vexti að mér þykir ansi gott að sofa yfir fótboltaleikjum, það er eiginlega besti svefninn sem ég fæ. Ég vil þó alls ekki missa af mörkum og því er það algjört lykilatriði að leikurinn sé annaðhvort hrikalega spennandi eða að lýsandinn öskri almennilega svo maður vakni.

Til dæmis var hægt að sofa frá því að Argentínumenn skoruðu seinna markið í úrslitaleiknum alveg fram á 80. mínútu þegar franska landsliðið mundi loksins að það væri að spila úrslitaleik. Eftir það varð leikurinn loks líflegur.

Það var ólíkt í leik Liverpool gegn Aston Villa á mánudag. Lýsandi leiksins var lítið að hækka róminn eða öskra. Þannig sofnaði ég rétt eftir hálfleik og vaknaði ekki fyrr en leikurinn var búinn og missti af tveimur mörkum. Leikurinn hefði því í mínum bókum getað farið 2-0 en fór 3-1 og ég missti af fyrsta úrvalsdeildarmarki hins 18 ára Stefans Bajcetic.

Höf.: Sonja Sif Þórólfsdóttir