Vegatálmar fjarlægðir Kósovó-Serbar fjarlægja flutningabíla, sem notaðir voru til að loka landamærastöðvum milli Serbíu og Kósovó í vikunni.
Vegatálmar fjarlægðir Kósovó-Serbar fjarlægja flutningabíla, sem notaðir voru til að loka landamærastöðvum milli Serbíu og Kósovó í vikunni. — AFP
Heldur hefur dregið úr spennu á landamærum Kósovó og Serbíu eftir að Kósovó-Serbar fjarlægðu í gær vegatálma sem þeir höfðu komið fyrir á landamærunum. Stærsta landamærastöðin var opnuð að nýju á fimmtudagskvöld og í gær voru vörubílar, sem lokuðu vegum að tveimur öðrum landamærastöðvum, fjarlægðir

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Heldur hefur dregið úr spennu á landamærum Kósovó og Serbíu eftir að Kósovó-Serbar fjarlægðu í gær vegatálma sem þeir höfðu komið fyrir á landamærunum.

Stærsta landamærastöðin var opnuð að nýju á fimmtudagskvöld og í gær voru vörubílar, sem lokuðu vegum að tveimur öðrum landamærastöðvum, fjarlægðir. Einu vegatálmarnir sem eftir standa í norðurhluta Kósovó eru nálægt borginni Mitrovica en þar loka tveir brunnir flutningabílar enn vegi.

Kósovó lýsti yfir sjálfstæði frá Serbíu árið 2008 eftir blóðug átök milli ríkjanna í lok síðustu aldar. En serbnesk stjórnvöld viðurkenna ekki sjálfstæði Kósovó og hafa hvatt um 120 þúsund Serba, sem búa í Kósovó, til að virða stjórnvöld í Pristinu, höfuðborg Kósovó, að vettugi. Meirihluti íbúanna í norðurhluta Kósovó er serbneskur en langflestir íbúar Kósovó eru albanskir að uppruna.

Kósovó-Serbar reistu vegatálma og lokuðu landamærastöðvunum tveimur til að mótmæla handtöku fyrrverandi lögregluþjóns, sem er grunaður um að tengjast árásum á albanska lögreglumenn. Einnig voru gerðar skotárásir á lögreglumenn og alþjóðlega friðargæslumenn á svæðinu. Serbneski herinn var settur í viðbragðsstöðu í vikunni. En Serbarnir féllust loks á, sumir með semingi, að fjarlægja vegatálmana eftir að Alexandar Vucic forseti Serbíu hvatti þá til þess. Áður höfðu bæði Bandaríkin og Evrópusambandið reynt að bera klæði á vopnin.

Staða öryggis- og stjórnskipunarmála í norðurhluta Kósovó er afar ótrygg eftir að hundruð serbneskra lögregluþjóna, bæjarstjóra, dómara og saksóknara lögðu niður störf í nóvember til að mótmæla umdeildri ákvörðun stjórnvalda í Kósovó um að banna Kósovó-Serbum að nota bílnúmeraplötur gefnar út í Belgrad, höfuðborg Serbíu. Fallið var í kjölfarið frá þeirri ákvörðun. Stjórnvöld í Pristinu reyndu að fylla í skörðin með því að senda albanska lögregluþjóna til norðurhlutans en Serbar þar hafa tekið það óstinnt upp.

„Ég óttast að eftir hátíðirnar munum við aftur safnast saman við vegatálma,“ sagði Milos, 35 ára gamall Serbi, við AFP. „Og þar munum við mæta vopnuðum lögreglumönnum.“

Höf.: Guðmundur Sv. Hermannsson