Hér skulu nefnd sex markverð tíðindi á árinu 2022 sem móta það sem gerist árið 2023 og til lengri framtíðar.

Pistill

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Hér skulu nefnd sex markverð tíðindi á árinu 2022 sem móta það sem gerist árið 2023 og til lengri framtíðar.

Útlönd

Stríðið í Úkraínu. Innrásin í Úkraínu 24. febrúar 2022 tekur á sig grimmdarlegri mynd eftir því sem stríðið lengist. Markmið Vladimirs Pútins Rússlandsforseta var að afmá Úkraínu sem sjálfstætt ríki. Að baki bjuggu keisaralegir stórveldisdraumar. Ástandið er hættulegra í Evrópu en nokkru sinni frá lokum annarrar heimsstyrjaldarinnar. Vegna óvissu um áform Rússa sóttu Finnar og Svíar um aðild að NATO. Í ársbyrjun var óhugsandi að þjóðirnar teldu nauðsynlegt að velja þá leið. Úkraínumenn sýndu meiri andstöðu en Pútin vænti og þeir hafa nú varanlega skipað sér með nágrannaþjóðum Rússa sem verjast ásókn þeirra hvað sem það kostar. Varanleg breyting hefur orðið á hernaðarlegum áherslum í okkar heimshluta. Athygli beinist meira en áður að norðurslóðum eftir því sem þrengir að Rússum á Eystrasalti og Svartahafi. Til að halda Rússum í skefjum þarf öflugar, varanlegar varnir á Norður-Atlantshafi.

Trump til hliðar. Óhugsandi er að Donald Trump bjóði sig fram til endurkjörs sem forseti Bandaríkjanna. Niðurstöður rannsóknar þingnefndar á atburðunum 6. janúar 2021 þegar ráðist var á þinghúsið í Washington við afgreiðslu kjörbréfs Joes Bidens sem arftaka Trumps á forsetastóli eru áfellisdómur yfir Trump sem bindur enda á stjórnmálaferil hans. Álög Trumps á flokk repúblikana hverfa smátt og smátt. Þeim frambjóðendum var ýtt til hliðar í kosningum í nóvember 2022 sem börðust undir Trump-merkinu um að sigrinum hefði verið stolið af honum með svindli í kosningunum 2020.

Kína í kreppu. Xi Jinping tókst á árinu að rjúfa óskráðu regluna frá falli einræðisherrans Maós að enginn valdamaður Kommúnistaflokks Kína skyldi sitja lengur við völd en í 10 ár. Í tíð Xis hefur Kína einangrast á alþjóðavettvangi og harðstjórn hefur aukist heima fyrir sem birtist undanfarin misseri skýrast í ofsóknum gegn minnihlutahópum og innilokun þjóðarinnar vegna COVID-faraldursins. Þegar þjóðinni var nóg boðið vegna innilokunarinnar og lá við að upp úr syði um landið allt kúventi Kínastjórn og situr nú uppi með hundruð milljóna sýktra og lítt bólusettra einstaklinga sem sliga heilbrigðiskerfið. Kína er í kreppu um þessi áramót. Nágrannaþjóðir óttast kínversk áhrif meira en áður, yfirgangsstefna Xis á heimavelli nær út fyrir landsteinana. Draumur hans um alheims-ítök í krafti fjárfestingarstefnunnar sem kennd var við belti og braut er úr sögunni.

Heima

Kjaramál. Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsforingi á Akranesi og formaður Starfsgreinasambandsins, braut ísinn í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins (SA) 3. desember og síðan sigldu önnur stór félög í kjölfarið. Markmiðið með samfloti fjölmennra félaga í Alþýðusambandi Íslands (ASÍ) og SA í kjaraviðræðum náðist. Ríkisstjórnin lagði sitt af mörkum. Samningarnir hlutu afgerandi stuðning félagsmanna í atkvæðagreiðslum um þá. Bylting var gerð í ASÍ. Drífa Snædal hrökklaðist úr forsetastólnum í ágúst, tveimur mánuðum fyrir ASÍ-þing. Þar var þó ekki gengið til forsetakosninga. Líklegasti frambjóðandinn, Ragnar Þór Ingólfsson, gaf framboðið móðgaður frá sér vegna mótstöðu í umræðum á þinginu. Hann skrifaði undir kjarasamning 12. desember ásamt Kristjáni Þórði Snæbjarnarsyni, formanni Rafiðnaðarsambands Íslands, starfandi ASÍ-forseta. Ragnar Þór treysti sér þó ekki til að mæla með eigin samningi. Það gerði Kristján Þórður sem hefur reynst farsæll ASÍ-forseti. Hann kemur líka beint að samningaborðinu en er ekki upphafinn skrifstofumaður eins og forverar hans. Tilraunir þeirra til að sanna gildi sitt með stóryrtum yfirlýsingum auðvelduðu ekki endilega gerð samninga. Sólveig Anna Jónsdóttir skipar nú hlutverk upphafna hrópandans með hóp einkennisklæddra samningamanna að baki sér – til hvers? Lítilsvirðing hennar í garð brottrekinna starfsmanna Eflingar gagnast ekki félagsmönnum Eflingar.

Útlendingamál. Alls voru 64.735 erlendir ríkisborgarar skráðir með búsetu hér 1. desember 2022, eru þeir nú 16,72% íbúa landsins. Þeim fjölgaði um 9.758 frá 1. desember 2021, eða um 17,7%. Á sama tímabili fjölgaði íslenskum ríkisborgurum um 1.564 eða 0,5%. Fyrsta desember 2022 voru alls 2.300 úkraínskir ríkisborgarar skráðir til heimilis á Íslandi. Nú er 1.251 einstaklingur með venesúelskt ríkisfang búsettur hér. Þá fjölgaði íbúum frá Palestínu töluvert, það er um 156 einstaklinga eða um 96,3%. Tölurnar sýna mikla breytingu á íslensku samfélagi. Umræður um þróunina verða fljótt tilfinningaþrungnar vegna þess að talsmenn engra landamæra vilja ræða málstað sinn með skírskotun til einstaklinga í stað þess að tekið sé mið af dapurlegri reynslu nágrannaþjóða og þeirri staðreynd að hér eru hömlur við landamæri mun veikari en hjá þeim. Landamæravörslu hefur því miður ekki verið breytt hér í ljósi þess sem gerst hefur. Í stað þess að krefjast harðari vörslu er aðild að Schengen-samstarfinu ranglega kennt um skort á varðstöðunni. Þá er látið eftirlits- og átölulaust að varið skuli á annan tug milljarða króna m.a. til að laða hælisleitendur hingað.

Samfylkingin. Að lokum skal talið til markverðra tíðinda á árinu 2022 að skipt var um forystu í Samfylkingunni. Nýr formaður sagði skilið við stefnuna sem fylgt hefur verið frá Jóhönnu-tímanum um nýja stjórnarskrá og ESB-aðild.

Þakka samfylgdina 2022. Gleðilegt nýtt ár!