Tefst Snjór liggur yfir grunni viðbyggingarinnar við flugstöðina á Akureyri en verktakinn bíður eftir að fá aðföng send að utan til verksins.
Tefst Snjór liggur yfir grunni viðbyggingarinnar við flugstöðina á Akureyri en verktakinn bíður eftir að fá aðföng send að utan til verksins. — Morgunblaðið/Margrét Þóra
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Framkvæmdir við stækkun flughlaðs ganga vel og milda veðrið í nóvember og byrjun desember hafði sitt að segja. Lokahnykkur á þeirri framkvæmd er að malbika bæði hlað og nýja akbraut og það verður gert næsta sumar

Margrét Þóra Þórsdóttir

Akureyri

„Framkvæmdir við stækkun flughlaðs ganga vel og milda veðrið í nóvember og byrjun desember hafði sitt að segja. Lokahnykkur á þeirri framkvæmd er að malbika bæði hlað og nýja akbraut og það verður gert næsta sumar. Útboðsgögnin eru í yfirferð og verða gögnin sett út núna um miðjan janúar,“ segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla.

Rétt ár er frá því skrifað var undir samning milli Isavia Innanlandsflugvalla og Byggingafélagins Hyrnu um viðbyggingu við flugstöðina á Akureyri. Viðbyggingin verður um 1.100 fermetrar að stærð og samningsupphæðin er ríflega 810 milljónir króna.

Fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir að nýja viðbyggingin yrði tilbúin síðsumars árið 2023, en Sigrún Björk segir að tafir hafi orðið á verkinu, m.a. vegna seinkunar á öllum aðföngum en það gildi um allan heim. Viðbyggingin verður að hennar sögn reist á vormánuðum.

„Eftir það verður byrjað á breytingum innanhúss í eldri hluta byggingarinnar og gert er ráð fyrir að verkefninu ljúki vorið 2024.“

Til að mæta auknum farþegafjölda og draga úr árekstrum milli innanlandsflugs og millilandaflugs var komið upp viðbótaraðstöðu í suðurhluta byggingarinnar fyrir innanlandsfarþega og hefur hún komið að góðu gagni.

Aukinn áhugi flugfélaga á að nýta nýjar gáttir

„Starfsfólk okkar á Akureyrarflugvelli ásamt starfsmönnum Icelandair, Tollsins og lögreglunnar á heiður skilinn fyrir að láta hlutina ganga upp. Framkvæmdatími á flugvelli í fullum gangi verður alltaf flókinn og þarf að taka tillit til margra þátta,“ segir Sigrún Björk .
Hún segir merki um nú að áhugi erlendra flugfélaga á að nýta sér nýjar gáttir inn til landsins bæði á Akureyri og Egilsstöðum hafi aukist.

„Næsta sumar frá júní til ágúst eru staðfest 70 millilandaflug frá Akureyri og í það heila frá janúar til nóvember á árinu 2023 verða tæp 200 millilandaflug,“ segir Sigrún Björk.

Höf.: Margrét Þóra Þórsdóttir