„Mér finnst margt vera að glatast með minni lestri, minni notkun og minni leik,“ segir Stefán Þór Sæmundsson, íslenskukennari við Menntaskólann á Akureyri.
„Mér finnst margt vera að glatast með minni lestri, minni notkun og minni leik,“ segir Stefán Þór Sæmundsson, íslenskukennari við Menntaskólann á Akureyri.
Það að lesa Arnald Indriðason eftir 50 ár verður eins og fyrir nemendur núna að lesa Laxness eða jafnvel Íslendingasögurnar.

Orri Páll Ormarsson

Stefán Þór Sæmundsson, íslenskukennari við Menntaskólann á Akureyri, situr í makindum yfir kaffibolla heima hjá sér þegar ég slæ á þráðinn til hans enda í jólafríi eins og stéttin almennt. Hann tekur erindinu þó strax vel enda rennur honum blóðið til skyldunnar. Hver er staða íslenskrar tungu áramótin 2022-23, frá sjónarhóli menntaskólakennarans?

„Orðaforði íslenskra ungmenna er að breytast; sumir segja að hann sé minni en áður en sennilega er réttara að segja að hann sé orðinn annar, það er meira enskuskotinn,“ segir Stefán Þór. „Nýyrði, slangur, styttingar og annað slíkt kemur í auknum mæli þaðan. En á meðan málið sem er talað er að meginhluta íslenska er engin ástæða til að örvænta. Hlaut líka ekki að koma að því að íslenskan færi að þróast hraðar en hún hefur gert undanfarnar aldir? Hún er eitt af þeim tungumálum í heiminum sem breyst hafa hvað minnst gegnum tíðina. Við höfum ríghaldið í beygingakerfi og hverskyns sérvisku sem mörg skyld germönsk mál hafa löngu kastað eða einfaldað.“

Meira töff að tala ensku

Hann kveðst alveg skilja menn sem spá dauða íslenskunnar enda verði alltaf algengara að heyra íslensk börn og unglinga tala ensku sín á milli í sundi eða á öðrum opinberum stöðum. „Maður varð svolítið hissa þegar maður heyrði guttana fyrst tala saman á ensku í sundi og hélt að kannski væri einhver innflytjandi í hópnum. En nei, svo var ekki. Þeim fannst bara meira töff að tala ensku, sérstaklega þegar umræðuefnið er tölvuleikir en allur sá málheimur liggur henni nær,“ segir hann.

Þegar ungmenni tala ekki, lesa ekki og hlusta ekki á íslensku er ekkert undarlegt að málið útvatnist býsna hratt og málskilningur dofni. Stefán Þór segir marga nemendur sína hafa tilhneigingu til að stytta sér leið þegar þeim er gert að lesa bók; þeir reyni að finna glósur, útdrætti, hljóðbækur og allt sem sparar þeim ómakið.

„Hvaða áhrif hefur það þegar menn hlusta meira en þeir lesa? Það er ekki komin nægilega mikil reynsla á það. Auðvitað finnst sumum nemendum þægilegra að hlusta á bækur enda geta þeir þá gert eitthvað annað á meðan en viðheldur það máltilfinningunni og ná þeir þræðinum? Þessir nemendur vilja líka heldur einfaldar bækur enda eiga þeir vont með að skilja tímaflakk, mismunandi sjónarhorn og annað slíkt þegar þeir hlusta bara á þær. Mér finnst margt vera að glatast með minni lestri, minni notkun og minni leik,“ segir Stefán Þór sem hefur góðan samanburð eftir 28 ár sem íslenskukennari í framhaldsskóla. Hann vonast þó til að íslenskan verði áfram nothæf á öllum sviðum og líst vel á þróun máltækninnar.

Æ færri þekkja Laxness

– Er þá mikill munur á stöðunni núna og þegar þú byrjaðir að kenna?

„Já, auðvitað er munur. Forðum voru sumir gamalreyndir kennarar að þusa um að nemendur gætu ekki komið inn í framhaldsskóla án þess að vera búnir að lesa Laxness og Íslendingasögurnar og þegar ég var að byrja í kennslunni var hægt að minnast á ýmsar bókmenntir og nemendur könnuðust við margar hverjar og voru sjálfir að lesa. Á þessum tíma höfðu nemendur upp til hópa annan og meiri orðaforða í íslensku. Það hefur breyst mikið og sérlega hratt síðustu 15-20 árin með blessuðum snjalltækjunum og æ minni bóklestri.“

– Færðu varla inn nemendur lengur sem lesið hafa bókmenntir?

„Þeim fer ört fækkandi og í núverandi námskrá er erfitt að ná utan um nemendur sem eiga vont með að lesa sér til skilnings og gagns og gera það ekki. Þeir skilja ekki heldur verklýsingar eða fyrirmæli á prófum eða nenna ekki að lesa þau vegna þess að þetta er kannski hálf blaðsíða. Allt sem heitir þol, seigla eða pælingar hefur minnkað til muna.“

Meiri áhersla á málnotkun

Íslenskukennarar í Menntaskólanum á Akureyri hafa verið að draga úr áherslu á bókmenntasögu í sinni kennslu, upptalningu á nöfnum, titlum og skáldum sem nemendur tengja ekkert við. Þess í stað og meðfram hefur verið lagt meira upp úr málnotkun og það að leika sér með málið. Sum sé vinna með nútímamál. Stefán Þór bjó til sérstakt kennsluhefti af þessu tilefni, Málæði, sem nemendur á öðru ári glíma við.

„Niðurstaða mín úr svona málpólitískum umræðum við nemendur mína er í 90% tilfella sú að nemendur vilja viðhalda og varðveita íslenskuna og að þeir sem hingað flytja tileinki sér tungumálið okkar. Þeim finnst hins vegar allt í lagi að það taki breytingum og ekkert „möst“ eins og þeir segja að beygja seinna skírnarnafn fólks. Óþarfi sé að fara til Tönju Ýrar, alveg nóg sé að fara til Tönju Ýr.“

Stefán Þór hefur líka átt samtal við nemendur sína um það hvort rökrétt sé að taka upp tvö opinber tungumál á Íslandi, íslensku og ensku. Halda þeim svo bara aðskildum enda eiga ung börn mjög auðvelt með að vera tvítyngd. „Er það ekki betra en að vera með þetta hálfkák í dag, það er að blanda saman ísl-ensku?“

Hann segir þessa leið umhugsunarverða svo að íslenskan verði ekki alveg undir enskunni. Mörg lönd búi að fleiri en einu opinberu tungumáli sem eigi sinn rétt. „Við erum eyland og ferðamannaríki og státum af því að tala ensku við allt og alla, jafnvel Íslendinga sem villast inn á ferðamannastaði í bláum anorak, eins og ég hef oft orðið var við. Hvers vegna ekki að nýta málhæfileika þeirra ungu og leyfa þeim að vera tvítyngdir? Þetta er ein leiðin og í mínum huga eru þessi hreintungustefna, málfasismi og mállöggur á netinu ekki að gera neitt gagn. Raunar meira ógagn. Hæfilegt aðhald og umræða um tungumálið og að viðurkenna breytileika þess er miklu vænlegra til árangurs. Við þurfum að vera duglegri að spyrja okkur: Hvers vegna ekki?“ segir Stefán sem veltir jafnframt fyrir sér hvort hið opinbera kerfi fylgist almennt nógu vel með málþróun í dag.

Þurfa betri úrræði

Að sögn Stefáns Þórs hefur fram að þessu ekki verið mikið um innflytjendur, með annað móðurmál en íslensku, í Menntaskólanum á Akureyri en þeim fer nú fjölgandi og þar hafa líka stundað nám íslensk ungmenni sem alist hafa upp erlendis og erlendir skiptinemar sem vilja fá einingar með sér heim. „Mest hefur verið um íslenskumælandi nemendur sem oftar en ekki tala norðlensku, sem er auðvitað allra best,“ segir hann hlæjandi, „en þeim fer fjölgandi sem þurfa aðra þjónustu, svo sem verkefnalýsingar og bækur á ensku og jafnvel íslenskar bækur þýddar á ensku. Það hefur í för með sér meiri einstaklingsmiðaða þjónustu og við höfum verið að ræða innan skólans að við þurfum að eiga betri úrræði fyrir þennan sívaxandi hóp sem er með íslensku sem annað tungumál. Hérna þarf opinbera vakningu og auðvitað var stytting á námi í framhaldsskóla síst til bóta. Þetta er brýnt að leysa enda ber okkur skylda til að þjónusta betur með tilliti til tungumálsins alla þá sem vilja fara í krefjandi bóknám og útskrifast frá MA.“

Skilja þetta ekki

– Að öllu þessu sögðu, hvort ertu bjartsýnn eða svartsýnn fyrir hönd íslenskrar tungu?

„Ég er nokkuð viss um að gullaldaríslenskan deyr út og verður aðeins til í bókum. Það að lesa Arnald Indriðason eftir 50 ár verður eins og fyrir nemendur núna að lesa Laxness eða jafnvel Íslendingasögurnar. Ég var að lesa nýjustu bók Arnaldar og á einni blaðsíðu sá ég býsna mörg venjuleg en frekar gamaldags orð og hugsaði með mér: Nei, þetta skilja nemendur ekki! Þannig að íslenskan með öllum sínum sveigjanleika og fjölbreytileika deyr út og einsleitnin verður meiri. Við hættum með allskonar fjúk, skafrenning og hundslappadrífur og þetta verður allt einn snjóstormur.“

Að því sögðu er Stefán Þór ekki svartsýnn fyrir hönd íslenskunnar sem hluta af sjálfsmynd þessarar þjóðar. „Við munum áfram yrkja ljóð og texta og semja á íslensku. Þáttur tónlistarinnar verður mikill sem fyrr og við höldum áfram að vera heimsfrægir rithöfundar og krúttleg álfaþjóð með þetta litla sæta tungumál sem mun fleiri en við brenna fyrir að verði áfram til og muni varðveitast. Það þykir merkilega mörgum vænt um íslenskuna og ég vona að það skili árangri.“

Höf.: Orri Páll Ormarsson