Söngur Þjóðlög og kántrítónlist voru áberandi á efnisskrá Savanna. Hér eru félagarnir á upphafsdögum sínum með söng og spil. Frá vinstri Björn G. Björnsson, Troels Bendtsen og Þórir Baldursson.
Söngur Þjóðlög og kántrítónlist voru áberandi á efnisskrá Savanna. Hér eru félagarnir á upphafsdögum sínum með söng og spil. Frá vinstri Björn G. Björnsson, Troels Bendtsen og Þórir Baldursson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Tímamótin eru stór þótt ekki standi nú til að minnast þeirra í nokkru,“ segir Björn G. Björnsson. Að kvöldi nýársdags eru liðin rétt 60 ár frá því Savanna tríóið kom fram í fyrsta sinn á Grillinu á Hótel Sögu sem þá var nýlega opnað

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Tímamótin eru stór þótt ekki standi nú til að minnast þeirra í nokkru,“ segir Björn G. Björnsson. Að kvöldi nýársdags eru liðin rétt 60 ár frá því Savanna tríóið kom fram í fyrsta sinn á Grillinu á Hótel Sögu sem þá var nýlega opnað. Þetta var á því herrans ári 1963. Þarna kom tríóið fram með fullæfða skemmtidagskrá og skemmti gestum á Grillinu og á tveimur öðrum stöðum í borginni þetta kvöld. Segja má að þarna hafi tónninn verið gefinn, því með þessu hófst ferill sem stóð í fimm ár með söng um allt land, hljómplötum, sjónvarpsþáttum og skemmtunum innanlands og utan. Vinsældirnar voru komnar.

Þjóðlög og kúrekatónlist

Savanna tríóið skipuðu auk Björns þeir Troels Bendtsen og Þórir Baldursson. Saman störfuðu þeir til ársins 1967 að leiðir skildi. Þá var Björn farinn að starfa við leikmyndagerð á Sjónvarpinu sem þá var nýlega stofnað. Troels, sem lengi var kennari, stofnaði tríóið Þrjú á palli en fór síðan út í viðskiptalífið með eigið fyrirtæki. Þórir menntaði sig í tónlist og varð þekktur tónlistarmaður.

Einkum flutti Savanna tríóið þjóðlaga- og kúrekatónlist en fyrirmyndin var meðal annars Kingston-tríóið bandaríska. Lög í þeim stílnum byrjuðu félagarnir að syngja og spila á námsárum sínum í MR og Verzlunarskólanum.

Mörkuðu skil í tónlist og menningu

Síðastliðið vor færðu þeir Björn, Troels og Þórir Tónlistarsafni Íslands, sem er deild innan Landsbókasafnsins í Þjóðarbókhlöðunni, ýmis gögn frá Savannaferli sínum. Í þeim pakka voru minnisbækur, nótur og úrklippu-, bréfa- og myndasafn. Einnig langspil sem tilheyrði tríóinu og stundum var leikið á. Munirnir eru því komnir á góðan stað og sögunni þar með haldið til haga. Slíkt skiptir máli því Savanna tríóið, sem nefnt er eftir hinu víðfeðma gróðurbelti í Afríku, markaði skil í íslenskri tónlist og menningu á marga lund.

„Nei, við höfum mjög sjaldan frá því Savanna tríóið hætti árið 1967 komið saman opinberlega. Slíkt gerðum við síðasta árið 2009 á Jólagestum Björgvins. Og þótt við stöndum á tímamótum nú, það er að sextíu ár eru liðin frá því við stigum fyrst saman á svið, er endurkoma ekkert inni í myndinni. Við erum löngu dottnir úr allri æfingu í tónlistinni og lifum bara á góðum minningum frá þessum tíma. Þó er eftirtektarvert að lögin sem við sungum lifa enn meðal Íslendinga og sumir virðast jafnvel halda að við séum enn starfandi. Að lifa þannig í minni fólks er ansi gott,“ segir Björn.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson