Úr bæjarlífinu
Jón Sigurðsson
Blönduósi
Árið 2022 er við það að líða í aldanna skaut með allar sínar minningar. Samfélagið okkar við botn Húnafjarðar hefur gengið í gegnum sætt og súrt, atburði sem engan hefði órað fyrir í upphafi árs. Hinir hörmulegu atburðir sem áttu sér stað í sumar, þegar tveir létu lífið í skotárás og einn særðist alvarlega, lita minninguna sterkum litum hvort sem okkur líkar betur eða verr. Um þennan atburð hefur mikið verið fjallað og hann sett mark sitt á allt samfélagið en málalok hafa ekki enn litið dagsins ljós. Margir eiga um sárt að binda og munu mörg sárin seint gróa. Eitt stendur þó upp úr þessum harmleik en það er hin mikla samstaða og samhugur sem samfélagið býr yfir og umvafði þá sem um sárt áttu að binda með kærleik og hlýju.
Árið var ár sameininga í Austur-Húnavatnssýslu. Sameining Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar í eitt sveitarfélag var samþykkt í kosningum snemma í vetur. Sameinað sveitarfélag tekur yfir allt það land sem tilheyrði sveitarfélögunum tveimur. Hið sameinaða sveitarfélag fékk nafnið Húnabyggð og standa á bak við þá nafngift 69% atkvæða þeirra sem atkvæði greiddu.
Þrátt fyrir grósku og bjartsýni í nýju sameinuðu samfélagi, sem býr án nokkurs vafa yfir meiri innri styrk, nær það ekki að halda í íbúana því þeim hefur fækkað um 17 á sl. 11 mánuðum. En það er líkt með þetta og náttúruna almennt, að stundum eru sólskinsstundirnar færri en í meðalári.
Sóknarbörnin í Þingeyraklaustursprestakalli fengu nýjan prest á árinu, Eddu Hlíf Hlífarsdóttur. Þingeyraklaustursprestakall samanstendur af fimm sóknum, Auðkúlusókn, Blönduósókn, Svínavatnssókn, Undirfellssókn og Þingeyrasókn. Íbúafjöldi í prestakallinu er um 1.350, þar af eru 916 16 ára og eldri í þjóðkirkjunni. Börn yngri en 16 ára eru 248. Hið forna Þingeyraklaustursprestakall virðist hafa verið lagt niður eftir prestkosninguna og allar sóknir í Húnavatnssýslum báðum sameinaðar í eitt prestakall, Húnavatnsprestakall.
Gagnaverið Borealis Data Center og ítalska fyrirtækið Leaf Space hafa gert samning um hýsingu og rekstur á búnaði fyrir gervitunglafjarskipti. Gervihnattastöðin er staðsett við gagnaverið á Blönduósi þar sem allur búnaður er hýstur. Aðgengi að grænni orku og öruggum innviðum Borealis Data Center, ásamt ákjósanlegri staðsetningu á Blönduósi, gerir Leaf Space kleift að þjónusta stórt svæði og eiga í samskiptum við gervitungl á norðurslóðum með sjálfbærum og öruggum hætti.
Tveir, til þess að gera menn á besta aldri, hafa tekið höndum saman um að hefja gamla bæjarhlutann á Blönduósi til virðingar á ný. Reynir Finndal Grétarsson og Bjarni Gaukur Sigurðsson hafa stofnað þróunarfélag sem ætlað er að sjá um uppbyggingu miðbæjar og ferðaþjónustu á Blönduósi. Þeir eru báðir uppaldir Blönduósingar. Félagið er búið að gera samning við Byggðastofnun um kaup á hótelinu í gamla bænum, sem hefur staðið autt, og einnig hefur það fest kaup á tveimur eignum til viðbótar í gamla bænum. Þessum áformum fagna íbúar af heilum hug og sjá fram á betri daga í gamla bæjarhlutanum þar sem Skáksambandið var stofnað á sínum tíma.
Sameining sveitarfélaganna tveggja hefur ruglað nokkra í ríminu hvað heimilisfesti varðar og einhverjir Blönduósingar eru farnir að þoka Blönduóssnafninu út af kortinu og staðsetja sig í Húnabyggð. Í mínum huga verð ég ávallt Jón sem skrifar frá Blönduósi og hinn aldni heiðursmaður og nafni minn í Hnausum verður alltaf kenndur við þann stað, þótt sameiginlega búum við í Húnabyggð. Megi farsæld okkur öllum fylgja inn í komandi ár.