Veðurstofa Íslands gaf í gær út appelsínugula viðvörun vegna hvassviðris og mikillar snjókomu á Suðurlandi. Átti viðvörunin að taka gildi klukkan 7 í morgun og gilda fram til klukkan 15 í dag. Gul viðvörun átti einnig að gilda á suðvesturhorninu fram að hádegi

Urður Egilsdóttir

urdur@mbl.is

Veðurstofa Íslands gaf í gær út appelsínugula viðvörun vegna hvassviðris og mikillar snjókomu á Suðurlandi. Átti viðvörunin að taka gildi klukkan 7 í morgun og gilda fram til klukkan 15 í dag. Gul viðvörun átti einnig að gilda á suðvesturhorninu fram að hádegi.

Reiknað er með þrettán til tuttugu metrum á sekúndu og talsverðri snjókomu fyrst á Reykjanesskaga en síðar við suðurströndina og undir Eyjafjöllum fyrir hádegi. Hvassast verður við ströndina og til fjalla. Reikna má með skafrenningi, lélegu skyggni og ófærð en lægja ætti nokkuð með deginum.

Loka mögulega brautinni

Vegagerðin gaf út í gærkvöldi að Reykjanesbrautinni yrði hugsanlega lokað aðfaranótt gamlársdags vegna færðarinnar. Eru vegfarendur og þeir sem eiga pantað flug hvattir til að fylgjast með þróun mála. Ef til lokunar kemur er líklegt að skoðaður verði fylgdarakstur á rútum milli höfuðborgarsvæðis og flugstöðvar í samráði við Isavia. Isavia hefur birgt Leifsstöð upp af teppum og vatni, til að vera til taks komi til þess að farþegar verði þar strandaglópar.

Bæði Play og Icelandair hafa ákveðið að seinka flugi í dag. Icelandair hefur ákveðið að seinka öllu flugi til og frá Norður-Ameríku um eina klukkustund og öllu flugi til Evrópulanda um tvær klukkustundir. Play hefur seinkað nokkrum ferðum að morgni dags.

Þá gæti þjónusta Strætó verið skert á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni í dag. Notendur Strætó eru beðnir að fylgjast með tilkynningum og leiðum á heimasíðu Strætó, í Klappinu eða á Twitter.

Ríkislögreglustjóri lýsti yfir óvissustigi almannavarna vegna veðursins. Samráðsfundur er sagður hafa verið haldinn með viðbragsaðilum um allt land þar sem var farið yfir stöðuna.

„Mikill fjöldi ferðafólks er á landinu og því geta samgöngutruflanir haft áhrif á ferðalög þeirra, ekki síst til og fá höfuðborgarsvæðinu. Því er það algjört grundvallaratriðið [sic] að þau sem þurfa að fara á milli staða fylgist með veðurspá og færð vega,“ segir í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra.

Höf.: Urður Egilsdóttir