Að nýloknu jólabókaflóði dettur okkur ekki annað í hug en að íslensk tunga standi sterkt. Á hverju ári kemur út ótrúlegur fjöldi bóka sem ber kröftugu bókmenntastarfi og nýsköpun tungunnar vitni, og nýjar öflugar raddir koma úr hópi innflytjenda. Árleg könnun Miðstöðvar í íslenskum bókmenntum sýnir að þjóðin les/hlustar að meðaltali á 2,4 bækur á mánuði, en sá hópur sem aldrei les bók stækkar hins vegar. Um 65% landsmanna lesa eingöngu eða oftar á íslensku en öðru tungumáli, en þau sem eru 34 ára og yngri lesa oftar en þau sem eldri eru á öðru tungumáli en íslensku.
Öll þessi frjóa bókmenntastarfsemi styrkir stöðu íslenskunnar, en um leið vitum við að þar með er ekki öll sagan sögð. Enskan tekur sér æ stærra rými í mál- og hljóðheimi þeirra sem yngri eru og fullorðinna líka, og því blasir við að aðgengi að efni á íslensku verður að vera enn fjölbreyttara og ríkulegra, annars leita þau eðlilega í þær gríðarstóru efnisveitur sem eru á öðrum tungumálum. Áramótaheitið ætti að vera að spara í engu stuðning við framleiðslu á efni fyrir yngra fólk á íslensku, hljóðbækur eða rafbækur, en ekki síður margvíslegt sjónvarps-, kvikmynda- og leikjaefni.
Spár eru um að Íslendingum fjölgi um 100.000 þúsund á næstu fimmtíu árum og að sú fjölgun verði einkum í hópi innflytjenda. Færni í tungumálinu er mikilvæg forsenda þess að þeir verði strax fullgildir þátttakendur í samfélaginu. Það verður ekki aðeins gert með því að auðvelda aðgengi að kennslu í íslensku sem öðru máli og setja meira fé í þann málaflokk, sem er nauðsynlegt, heldur verðum við sem tölum málið að styðja þá sem læra íslenskuna, tala við þau og hvetja áfram – og muna að við sjálf tölum ekki aðrar tungur fullkomlega eða hreimlaust. Tungumálið á að sameina en ekki sundra, þannig sköpum við heilsteypt samfélag.
Sumir segja að það taki því ekki að spyrna við fótum því að enskan muni ríkja ein í þeim alþjóðlega stafræna heimi sem við hrærumst í alla daga og hún leysi allan vanda. En þá horfum við framhjá styrk allra móðurmála og ást okkar á þeim, en ekki síður að gerlegt er að styðja við íslenskuna í þessum nýja tækniheimi með markvissri þróun íslenskrar máltækni og gervigreindar. Heimurinn þarf á fjölbreyttum sögum, margvíslegri reynslu og sjónarhornum á heiminn að halda og íslenskan mun dafna, eins og önnur tungumál, ef við færum henni þau tól sem hún þarfnast. Í samhengi hlutanna kostar ekki mikið að veita þann stuðning – en margfalt dýrara að gera það ekki.