Sonja Ýr Þorbergsdóttir
Sonja Ýr Þorbergsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Kjaraviðræður samtaka opinberra starfsmanna og ríkisins gætu komist á skrið fljótlega í byrjun nýs árs en samningar meirihluta aðildarfélaga BSRB og BHM eru lausir í lok mars.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Kjaraviðræður samtaka opinberra starfsmanna og ríkisins gætu komist á skrið fljótlega í byrjun nýs árs en samningar meirihluta aðildarfélaga BSRB og BHM eru lausir í lok mars.

Fulltrúar ríkisins hafa lýst áhuga á gerð skammtímasamnings og hafa forystumenn opinberu samtakanna ekki útilokað að sú gæti orðið niðurstaðan en þó aðeins með því skilyrði að ríkið efni loforð í tengslum við breytingarnar sem gerðar voru í lífeyrismálum á árinu 2016 um jöfnun launa á milli markaða. Samninganefnd ríkisins hefur boðað formenn BSRB, BHM og KÍ til fundar í næstu viku. Forystumenn heildarsamtakanna áttu óformlegan fund með formanni samninganefndar ríksins um miðjan desember.

„Við höfum talað saman óformlega og samninganefnd ríkisins hefur boðað formenn heildarsamtaka saman á sinn fund á fimmtudaginn í næstu viku til að ræða stöðu mála. Ætli það sé ekki til þess að taka hitastigið hjá okkur öllum varðandi viðræður um skammtímasamning,“ segir Friðrik Jónsson, formaður BHM.

Hann segir að ef skammtímasamningur til tólf mánaða sé í boði þá hljóti menn að skoða hvað í því felist, hvort sé verið að tala um framlengingu á núverandi samningum og bæta einhverju við launaliðinn og hvaða önnur atriði yrðu rædd beint við samningaborðið við ríkið sem launagreiðanda og önnur mál sem ræða þurfi almennt við stjórnvöld. Þá þyrfti einnig að setja niður greinargóða viðræðuáætlun um hvað viðsemjendur ætla að takast á við á næstu tólf mánuðum til að undirbyggja góðan langtímasamning sem tæki síðan við. BHM kynnti megináherslur samtakanna fyrir endurnýjun kjarasamninganna í nóvember þar sem meginmarkmið eru að auka kaupmátt ráðstöfunartekna, leiðrétta skakkt verðmætamat starfa á opinberum markaði og tryggja efnahagslegan og félagslegan stöðugleika.

„Ég geri ráð fyrir að við myndum setja niður fyrir okkur hvað það er sem við erum að tala um, hvaða árangri ætlum við að ná og hvernig ætlum við að tímasetja það. Stóra málið sem hefur komið fram hjá okkur öllum í heildarsamtökunum er að það þarf að ljúka við að leysa úr samkomulaginu sem gert var 2016 í tengslum við breytingarnar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna. Eftir margra ára þref er loksins kominn gangur í það samtal. Ég leyfi mér að vera bjartsýnn á að við séum að komast eitthvað áfram með það. Ríkið gerir sér líka grein fyrir því að þetta er mál sem er ekki hægt að hafa hangandi yfir okkur. Það þarf að leysa það,“ segir Friðrik.

Kjarasamningur taki við af kjarasamningi

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, tekur í sama streng og segir að stóra forsenda samkomulags um skammtímasamning sé sú að niðurstaða náist um jöfnun launa á milli markaða. „Við höfum sameinast um það BSRB, BHM og KÍ að það verði að liggja fyrir niðurstaða í vinnunni varðandi jöfnun launa á milli markaða sem hefur verið í gangi frá 2016. Við leggjum ríka áherslu á að það sé klárað áður en við getum farið í kjarasamningsviðræðurnar,“ segir hún.

Sonja segir um undirbúning kjaraviðræðna að BSRB hafi lagt áherslu á að hafist verði handa við þau verkefni sem liggja fyrir, s.s. um styttingu vinnuvikunnar, einkum í vaktavinnu. „Við höfum farið fram á að það verði stofnaður starfshópur aftur með svipuðum hætti og var í síðustu kjarasamningsviðræðum og vonumst til að hann fari í gang fljótlega eftir áramót,“ segir hún. Hún gerir ráð fyrir að formlegt samtal viðsemjenda hefjist þá af fullri alvöru með það að markmiði að samningur geti tekið við af samningi.

Höf.: Ómar Friðriksson