Seyðisfjörður Vetrareinangrun hins gamla og sögufrægar bæjar lýkur með Fjarðarheiðargöngum.
Seyðisfjörður Vetrareinangrun hins gamla og sögufrægar bæjar lýkur með Fjarðarheiðargöngum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Áformuð lagning vegar úr væntanlegum Fjarðarheiðargöngum og niður á þjóðveginn við Egilsstaði getur haft verulega neikvæð áhrif á gróðurfar, einkum vegna skerðingar á votlendi, birki og æðplöntum sem njóta verndar

Áformuð lagning vegar úr væntanlegum Fjarðarheiðargöngum og niður á þjóðveginn við Egilsstaði getur haft verulega neikvæð áhrif á gróðurfar, einkum vegna skerðingar á votlendi, birki og æðplöntum sem njóta verndar. Er þá miðað við aðalvalkost Vegagerðarinnar, á nýrri leið sunnan við Egilsstaði. Þá ríki óvissa um áhrif allra þriggja mögulegra veglína á fléttutegundir og telur Skipulagsstofnun mikilvægt að eyða óvissunni með kortlagningu gróðurs.

Skipulagsstofnun hefur birt álit á umhverfismatsskýrslu Vegagerðarinnar vegna áforma um Fjarðarheiðargöng, milli Héraðs og Seyðisfjarðar, ásamt tengingum við vegakerfið. Göngin verða 13,3 kílómetra löng og vegakerfið utan ganga frá tæplega 7 og upp í 13,6 km, eftir því hvaða leiðir verða valdar. Fjarðarheiðargöng verða í hópi lengstu vegganga í heimi og stofnkostnaður er áætlaður 44-47 milljarðar.

Við gangagerðina fellur til mikið af umframefni sem þarf að haugsetja við gangamunnana með tilheyrandi sjónrænum áhrifum. Eru það vel yfir 300 þúsund rúmmetrar Héraðsmegin og enn meira Seyðisfjarðarmegin. Skipulagsstofnun leggur áherslu á að finna farveg fyrir nýtingu efnisins, sérstaklega Seyðisfjarðarmegin þar sem fjörðurinn er þröngur og landrými lítið. Í Seyðisfirði eru helstu neikvæðu áhrif framkvæmdarinnar tengd vatnsvernd. Ákveðin hætta er talin á því að á framkvæmdatímanum muni mengunarefni berast í Fjarðará og spilla vatnsbóli bæjarins. Telur Skipulagsstofnun að færsla inntakslóns vatnsveitu upp fyrir gangamunnann myndi draga mjög úr þeirri hættu.

Þær þrjár leiðir úr göngunum Héraðsmegin sem metnar voru í umhverfismati eru sunnan og norðan við Egilsstaði og í gegn um bæinn á núverandi stað, eftir Fagradalsbraut, og er hún kölluð miðleið. Suðurleiðin er aðalvalkostur Vegagerðarinnar. Skipulagsstofnun telur eðlilegt að höfð verði hliðsjón af kortlagningu gróðurs við endanlegt val á veglínu og tekið mið af reglum um náttúruvernd. Bent er á að miðleiðin hefði minnst umhverfisáhrif. Hún sé jafnframt með lægstu slysatíðni og minnstan akstur.

Fagradalsbraut sem miðleið liggur um er talin hafa neikvæð samfélagsleg áhrif á byggðina beggja vegna vegarins. Skipulagsstofnun bendir í því sambandi á að svigrúm sé til að ráðast í aðgerðir sem bæti umferðaröryggi, svo sem lækka hraða og lagfæra hönnun, án þess að hafa áhrif á greiðfærni í samanburði við aðalvalkost. helgi@mbl.is