Verðlaunatillaga Úrslit í samkeppni um viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið voru kynnt í nóvember 2018.
Verðlaunatillaga Úrslit í samkeppni um viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið voru kynnt í nóvember 2018. — Tölvumynd/Kurtogpí
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég hef unnið að þessu verkefni samkvæmt samþykkt Alþingis á sínum tíma en mun fylgjast með umræðu um þingsályktunartillöguna á þingi og vænti þess að við verðum kölluð til. Mér er annt um þetta hús, að það fái notið sín, hvort sem það er gert …

Sviðsljós

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Ég hef unnið að þessu verkefni samkvæmt samþykkt Alþingis á sínum tíma en mun fylgjast með umræðu um þingsályktunartillöguna á þingi og vænti þess að við verðum kölluð til. Mér er annt um þetta hús, að það fái notið sín, hvort sem það er gert með heildarfriðun sem ég er efins um eða á annan hátt. Það verður ágætis svigrúm til að ræða þessi mál, framkvæmdir eru ekki að hefjast á morgun,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þegar leitað er álits hennar á þingsályktunartillögu um friðlýsingu nærumhverfis Stjórnarráðshússins við Lækjartorg sem lögð hefur verið fram á Alþingi. Verði tillagan samþykkt getur ekki komið til viðbyggingar við Stjórnarráðið.

Í forsætisráðherratíð Sigurðar Inga Jóhannssonar, árið 2016, samþykkti Alþingi þingsályktun um það hvernig minnast skyldi aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands. Þar var kveðið á um að efnt skyldi til samkeppni um hönnun og útlits Stjórnarráðsbyggingar og skipulags á stjórnarráðsreit. Var það gert og hafa niðurstöðurnar legið fyrir um skeið. Reykjavíkurborg hefur samþykkt deiliskipulag fyrir lóðina. Jafnframt er til skoðunar hjá borgaryfirvöldum að heimila byggingu stórs húss á lóðinni Bankastræti 3 sem er næsta lóð fyrir ofan Stjórnarráðið. Komið hefur fram að forsætisráðuneytið hefur áhyggjur af stærð þess húss og telur að það gæti orðið ógn við aðstöðu æðstu stjórnar landsins vegna nálægðar við hús á stjórnarráðsreitnum. M.a. yrði auðvelt að kasta hættulegum efnum/hlutum út um glugga á efri hæðum þeirrar byggingar ofan á þak nýbyggingar forsætisráðuneytisins.

Í tillögu þingmannanna sem eru 18 úr fimm flokkum og Birgir Þórarinsson er fyrsti flutningsmaður að er lagt til að lóð ríkisins við Stjórnarráðshúsið og annað nærumhverfi þess verði friðlýst en í því á að felast að ekki verði reist bygging í næsta nágrenni þess sem raskað gæti stöðu þess eða varpað skugga á það. Tekið er fram að fyrirhuguð viðbygging við Stjórnarráðshúsið yrði til að rýra varðveislu- og menningarsögulegt gildi hússins og yrði hún óheimil með samþykkt tillögunnar.

Í samræmi við þingsályktun

Katrín segir að staðið hafi til í allmörg ár, frá því fyrir hennar tíð sem forsætisráðherra, að byggja við Stjórnarráðshúsið. Málið hafi verið undirbúið í samræmi við þingsályktun frá 2016 en framkvæmdum frestað, nú síðast vegna stöðu efnahagsmála. Því sé ekki komið að framkvæmdum.

Hún leggur áherslu á að finna þurfi fullnægjandi lausn á húsnæðisvanda forsætisráðuneytisins. Starfsemi þess er dreifð í nokkrum húsum, meðal annars í ótryggu leiguhúsnæði, og segir forsætisráðherra að það sé ekki fullnægjandi til framtíðar. Húsnæðismál annarra ráðuneyta en forsætisráðuneytisins hafi hingað til haft forgang.

„Mér hefur fundist mikilvægt að þetta gamla hús fái að njóta sín og fái áfram að vera forsætisráðuneytið. Best væri að leysa húsnæðisvandann með viðbyggingu sem ekki skyggir á húsið. Við munum, í ljósi umræðu um þingsályktunartillöguna á Alþingi, fara yfir þessar áætlanir,“ segir Katrín. Spurð að því hvort hún telji að hægt sé að byggja á lóðinni án þess að skyggja á Stjórnarráðshúsið segir hún að það hafi einmitt verið ein af þeim forsendum sem gefnar voru í hönnunarsamkeppninni.

Katrín bætir því við að sér finnist að taka mætti upp umræðu um helgunarsvæði Stjórnarráðshússins, Alþingis og annarra slíkra bygginga. Vegna starfseminnar þar þurfi þær að hafa svolítið rými í kringum sig. Það sé þekkt við miðstöðvar stjórnsýslu og dómstóla erlendis.

Höf.: Helgi Bjarnason