Íslensk tunga er ekki einungis tæki til tjáskipta. Hún er sjálfur kjarni þjóðmenningar okkar og samsömunar. Íslendingar státa ekki af glæsilegum mannvirkjum frá miðöldum, höggmyndum, málverkum, tónsmíðum eða dönsum

Íslensk tunga er ekki einungis tæki til tjáskipta. Hún er sjálfur kjarni þjóðmenningar okkar og samsömunar. Íslendingar státa ekki af glæsilegum mannvirkjum frá miðöldum, höggmyndum, málverkum, tónsmíðum eða dönsum. Við eigum hins vegar stórkostlegan menningararf lifandi tungu og bókmennta. Þannig er íslenskan síkvikt listaverk í krafti gegnsæis, orðsifja og sköpunarmáttar.

Staða íslenskrar tungu er í senn sterk og veik. Hún er sterk að því leyti að laga sig sífellt að krefjandi viðfangsefnum og nýrri tækni, þar á meðal stafrænni, með öflugri nýyrðasmíð ásamt blómlegu bókmenntalífi. Styrkur íslenskunnar felst ekki síður í fjölda þeirra sem láta sér annt um málið sitt og þá er ótalin breiðfylking Almannaróms.

Íslensk tunga er veik að því leyti að lesskilningur unglinga, sérstaklega drengja, er slakur. Einnig á málkennd mjög undir högg að sækja, ekki síst í fjölmiðlum, þar sem lögmál tungunnar eru gjarnan virt að vettugi. Vísast átta sumir okkar ágætu fræðimanna sig ekki á því hve miklu atfylgi þeirra getur skipt með glöggum viðmiðum og ábendingum um rétt mál eða æskilegt. Það er letjandi og ruglandi fyrir þá sem vilja tala gott mál, og ekki síður þá sem eru að læra íslensku frá grunni, að hafa ekki skýr leiðarljós.

Í riti sínu, Skynsamleg orð og skætingur sem út kom 1985, fjallar höfuðsnillingurinn Helgi Hálfdánarson um þetta álitamál á gamansömum nótum: „Mér hefur virzt sú skoðun nokkuð almenn, að sú deild háskólans, sem kennd er við íslenzk fræði, sé helst til lík þeirri læknastétt, sem fengist við það eitt að safna gögnum um heilsufar landsmanna fyrr og síðar, greina sjúkdóma og skrá tíðni dauðsfalla af völdum þeirra á ýmsum tímum, ekki í því skyni að ráða niðurlögum neinnar veiki, heldur af hreinvísindalegum áhuga einum saman; enda væri sjúkdómur, sem maður hefur á annað borð tekið, orðinn hið rétta eðli þess manns upp frá því; fylgzt væri vandlega með stöku sjúklingi, ekki til að reyna að lækna hann, heldur til að skrá líðan hans dag frá degi á skýrslur og líta á klukkuna þegar hann deyr.” Þessu glensi Helga fylgir auðvitað hvatning til dáða.

Það er fyrst og fremst íslensk alþýða sem hefur varðveitt málið okkar alla tíð og skynjað samfellu þess við fornan málarf þjóðarinnar. Þannig vorum við nokkrir krakkar svo lánsamir að fá að fara í sveit þar sem okkur var gert ljóst að jafnmiklu skipti að virða lögmál íslenskrar tungu og að standa vel að verki. Lagt var að jöfnu að fara rétt með fleygar setningar úr fornsögum eða ljóð Jónasar og að fara rétt að hrossi. Málrækt og jarðrækt áttu góða samleið, okkur krökkunum var hrósað fyrir gagnyrt tungutak og við vorum hvött til að lesa bækur samtímahöfunda, kvenna og karla. Virðing þessara mætu bænda fyrir hinni einstöku perlu, íslenskunni, var ungu fólki ómetanlegt veganesti. Megi svo lengi verða.