Á sjó Sjómenn krefjast þess að gengið verði frá kjarasamningum.
Á sjó Sjómenn krefjast þess að gengið verði frá kjarasamningum. — Morgunblaðið/Þorgeir
Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar á Húsavík hefur skorað á samtök sjómanna að hefja undirbúning að aðgerðum gegn útgerðarfyrirtækjum, í samráði við aðildarfélögin, til að knýja á um lausn kjaradeilunnar milli sjómanna og útgerðarmanna

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar á Húsavík hefur skorað á samtök sjómanna að hefja undirbúning að aðgerðum gegn útgerðarfyrirtækjum, í samráði við aðildarfélögin, til að knýja á um lausn kjaradeilunnar milli sjómanna og útgerðarmanna. Sjómenn hafa nú verið samningslausir í á fjórða ár.

Fram kemur í ályktun félagsins sem send var fjölmiðlum í gær að miklar umræður hafi farið fram um kjaramálin á fundinum og eru útgerðarmenn sakaðir um virðingarleysi í garð sjómanna, sem hafi nú náð nýjum hæðum.

„Krafa aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands er skýr um að sjómenn fái inn í kjarasamninginn ákvæði um að útgerðin greiði 3,5% viðbótarframlag í lífeyrissjóði sjómanna með sama hætti og launafólk á almenna vinnumarkaðnum hefur þegar samið um við atvinnurekendur,“ segir í ályktun fundarins þar sem kröfur félagsins eru ítrekaðar.

„Jafnframt fái sjómenn sömu hækkanir á kauptryggingu sjómanna og aðra kaupliði og samið hefur verið um á almenna vinnumarkaðinum frá árinu 2019. Það er með öllu ólíðandi að kauptrygging sjómanna sé langt undir lágmarkslaunum á Íslandi en hún er í dag kr. 326.780 meðan lágmarkslaun eru kr. 402.235 samkvæmt kjarasamningi SGS og SA,“ segir þar ennfremur. omfr@mbl.is