Háspenna Landsnet flytur raforku og stjórnar raforkukerfinu.
Háspenna Landsnet flytur raforku og stjórnar raforkukerfinu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Samningar hafa tekist um kaup ríkisins á 93,22% eignarhlut Landsvirkjunar, RARIK og Orkubús Vestfjarða í Landsneti. Ríkið greiðir bókfært verð fyrir eignarhlutinn, eða 439 milljónir Bandaríkjadala sem svarar til um 63 milljarða króna

Samningar hafa tekist um kaup ríkisins á 93,22% eignarhlut Landsvirkjunar, RARIK og Orkubús Vestfjarða í Landsneti. Ríkið greiðir bókfært verð fyrir eignarhlutinn, eða 439 milljónir Bandaríkjadala sem svarar til um 63 milljarða króna. Ríkið á að fullu þau félög sem selja því eignarhluti sína í Landsneti. Orkuveita Reykjavíkur á áfram sinn hlut, 6,78%, nú á móti ríkinu einu.

Landsnet var stofnað með lögum á árinu 2004 og tók til starfa í byrjun árs 2005. Fyrirtækið starfar samkvæmt sérleyfi og gegnir mikilvægu hlutverki á raforkumarkaði. Hlutverk þess er flutningur raforku og stjórnun raforkukerfisins. Fyrirtækið er háð eftirliti Orkustofnunar sem ákveður tekjumörk sem gjaldskrár byggja á.

Í orkustefnu til 2050 sem birt var haustið 2020 kemur meðal annars fram að hlutlaust eignarhald sé grundvöllur gagnsæis og jafnræðis á raforkumarkaði og því mikilvægt að ljúka aðskilnaði eignarhalds flutningsfyrirtækisins þannig að það sé í beinni opinberri eigu. Kaup ríkisins grundvallast á þessu sjónarmiði, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu vegna kaupa ríkisins á Landsneti, og eru þau sögð í samræmi við það sem kveðið er á um með nýlegum breytingum á raforkulögum og lögum um stofnun Landsnets.

Landsvirkjun var meirihlutaeigandi Landsnets, með 64,73% hlut, og fær því nærri 44 milljarða króna af söluverðinu í sinn hlut. RARIK átti 22,51% eignarhlut og fær rúma 15 milljarða. Orkubú Vestfjarða átti 5,98% og fær 4 milljarða við söluna. Í fréttatilkynningu er ekki sagt hvernig ríkið greiðir kaupverðið. Haft er eftir Elíasi Jónatanssyni, orkubússtjóra Orkubús Vestfjarða, að fyrirtækið fái nú ný tækifæri til að auka fjárfestingar í orkuinnviðum á Vestfjörðum og tryggja þannig Vestfirðingum betur sambærilega stöðu í raforkumálum og aðrir íbúar landsins búa við.

Fjórði eigandinn er Orkuveita Reykjavíkur og heldur hún sínum 6,78% hlut. Miðað við viðskipti ríkisfyrirtækjanna er sá hlutur 4,6 milljarða króna virði. helgi@mbl.is