Afkoma 15 stærstu sveitarfélaga landsins er mjög mismunandi hvort sem litið er á áætlanir um rekstrarniðurstöðu þeirra á næsta ári eða hlutfall veltufjár frá rekstri. Af þessum 15 sveitarfélögum þar sem búa rúmlega 85% landsmanna vænta níu afgangs…

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Afkoma 15 stærstu sveitarfélaga landsins er mjög mismunandi hvort sem litið er á áætlanir um rekstrarniðurstöðu þeirra á næsta ári eða hlutfall veltufjár frá rekstri. Af þessum 15 sveitarfélögum þar sem búa rúmlega 85% landsmanna vænta níu afgangs af rekstri á komandi ári en sex sveitarfélög reikna með halla. „Til samanburðar voru tíu rekin með halla 2022 og fimm með afgangi. Veltufé frá rekstri er áætlað verða neikvætt um yfir 4% af tekjum hjá einu sveitarfélaganna árið 2023 og jákvætt um yfir 14% hjá öðru,“ segir í nýjum samanburði Sambands íslenskra sveitarfélaga á fjárhagsáætlunum stærstu sveitarfélaga fyrir næsta ár.

Fram kemur að fjárhagsáætlanir þessara 15 sveitarfélaga eru mjög mismunandi. Þannig eru t.a.m. áætlanir um breytingu skatttekna milli áranna 2020 og 2023 allt frá 0% og upp í tæp 14%. „Mjög er mismunandi hversu miklar fjárfestingar sveitarfélögin áforma á næsta ári, eða allt frá 2,5% tekna upp í 23%,“ segir í greiningu sambandsins. Áform um stöðu skulda á næsta ári eru einnig ólík eða allt frá 80% af tekjum og upp í rösklega 200% af tekjum. Í ljós kemur að sjö sveitarfélaganna reikna með að skuldir hækki í hlutfalli við tekjur en átta búast við að hlutfallið lækki.

Þau sveitarfélög í þessum hópi sem setja stefnuna á afgang af rekstri A-hlutans á næsta ári eru Kópavogur, Hafnarfjörður, Reykjanesbær, Garðabær, Mosfellsbær, Akranes, Fjarðabyggð, Vestmannaeyjar og Borgarbyggð. Vestmannaeyjabær trónir á toppnum og gerir ráð fyrir mestum afgangi sem hlutfalli af tekjum (3,2%). Akraneskaupstaður kemur næst (2,8%) og því næst Borgarbyggð (1,8%).

Sveitarfélögin sex í þessum hópi stærstu sveitarfélaga sem gera ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu eru Reykjavík, Akureyri, Árborg, Múlaþing, Seltjarnarnes og Skagafjörður. Árborg gerir ráð fyrir mestum hallarekstri sem hlutfall af tekjum (-17,1%) og Reykjavíkurborg gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaðan verði -3,6% af tekjum.

Ef litið er á samanburð fjárhagsáætlana yfir skuldir og skuldbindingar sveitarfélaganna 15 kemur í ljós að skuldirnar sem hlutfall af tekjum verða hæstar í Árborg eða 202%, á Seltjarnarnesi er hlutfallið áætlað 141% og í Fjarðabyggð er þess vænst að hlutfall skulda og skuldbindinga A-hlutans verði 137% af tekjum á komandi ári.

Í samantekinni greiningu Sambands ísl. sveitarfélaga á fjárhagsáætlunum allra sveitarfélaganna 15 kemur fram að skatttekjur þeirra eru taldar munu aukast um 9% á næsta ári og tekjur í heild um 8,2% en til samanburðar spáir Hagstofan því að verðbólga verði 5,5% á árinu 2023. Áætlað er að gjöld aukist um 5,9% og þar af muni launakostnaður að meðtöldum lífeyrisskuldbindingum aukast um 6,1% á milli ára. „Gangi þessar áætlanir eftir mun rekstrarniðurstaða batna umtalsvert og hallinn lækka um 60%. Áætlað er að hallinn verði 2,0% af tekjum, samanborið við 5,3% 2022,“ segir í umfjölluninni.

Tekið er fram að mikil óvissa ríki um þróun efnahagsmála á næsta ári og um þróun launa og vaxta en fjármál sveitarfélaga ráðist ekki hvað síst af þeim þáttum. Reikna flest sveitarfélaganna með að tekjur hækki meira en gjöldin. Í mörgum tilvikum er byggt á aðhaldsaðgerðum sem eftir er að útfæra.

Fjárfestingar 2023

Akranes með stærstu áformin

Sveitarfélögin 15 eru með mjög misviðamikil áform um fjárfestingar á komandi ári. Akranes er þar í efsta sæti og gerir sveitarfélagið ráð fyrir að fjárfestingar A-hluta muni samsvara 23,4% af tekjum á næsta ári. Garðabær kemur næstur og stefnir á að fjárfestingar verði 22,4% af tekjum á árinu 2023. Seltjarnarnesbær gerir ráð fyrir fjárfestingum sem nema 18,6% af tekjum og Reykjanesbær 22,4%. Lægst er áætlað hlutfall fjárfestinga í Fjarðabyggð 2,6% af tekjum og Skagafirði 7%.

Áætlanir um samstæður sveitarfélaganna allra, þ.e. bæði fyrir A- og B-hluta, gera ráð fyrir að fjárfestingar þeirra muni aukast og að hlutfall þeirra af tekjum verði 17,5% á næsta ári, heldur meira en í ár. Reiknað er með að afkoma A- og B-hluta verði lakari en í ár en skuldir muni lækka.

Höf.: Ómar Friðriksson