Fíkniefni Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði hald á gríðarlegt magn fíkniefna á árinu, t.d. 160 kg af maríúana og 140 kg af kókaíni.
Fíkniefni Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði hald á gríðarlegt magn fíkniefna á árinu, t.d. 160 kg af maríúana og 140 kg af kókaíni. — Morgunblaðið/Eggert
Lögregla og tollgæsla lögðu hald á óvenjumikið magn fíkniefna á árinu og ljóst er að um er að ræða metár. Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum lögreglu fyrir árið. Þar segir að lögregla og tollgæsla hafi aldrei lagt hald á meira marijúna, eða yfir…

Urður Egilsdóttir

urdur@mbl.is

Lögregla og tollgæsla lögðu hald á óvenjumikið magn fíkniefna á árinu og ljóst er að um er að ræða metár. Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum lögreglu fyrir árið.

Þar segir að lögregla og tollgæsla hafi aldrei lagt hald á meira marijúna, eða yfir 160 kíló, það átti einnig við um amfetamínbasa, en lagt var hald á 47 lítra.

Þá lagði lögregla hald á yfir 140 kíló af kókaíni, en lagt var hald á um 100 kíló fyrst í Hollandi.

Lagt var hald á tæplega 21 lítra af MDMA-basa og rúm 2 kíló af metamfetamínkristöllum, sem er einnig meira en áður. Nefnt er að enn sé ekki búið að ljúka vigtun efna nema fyrir fyrstu tíu mánuði ársins.

Sérsveitin í 40% fleiri útköll

Alls voru 388 vopnaútköll skráð hjá sérsveit ríkislögreglustjóra árið 2022. Það eru 40% fleiri útköll en að meðaltali síðastliðin þrjú ár.

Í 62% þessara mála, þar sem einhver ber vopn og sérsveit er kölluð til, er um að ræða egg- eða stunguvopn og í 23% málanna var um að ræða skotvopn. Hegningarlagabrotum, sérrefsilagabrotum og umferðarlagabrotum fækkaði hins vegar.

Tæplega helmingur hegningarlagabrota á höfuðborgarsvæðinu var með skráðan vettvang á svæði lögreglustöðvar 1, sem nær yfir Háaleiti, Hlíðar, Laugardal, miðborg, Seltjarnarnes og Vesturbæ. Þar af voru um 16% hegningarlagabrota með skráðan vettvang í miðborginni.

Þegar litið er til grunaðra í hegningarlagabrotum má sjá að 78% grunaðra voru karlar og 22% konur. Þá voru nokkrir kynsegin einstaklingar uppvísir að brotum.

Í bráðabirgðatölunum segir að á árinu voru að jafnaði skráð 396 mál á sólarhring hjá lögreglu og þar af fólu að jafnaði 112 tilvik á sólarhring í sér útkall af einhverju tagi. Er það svipaður fjöldi og í fyrra. Alls voru rétt yfir 4.300 einstaklingar handteknir þetta árið.

Höf.: Urður Egilsdóttir