Heilsa Áramótaátakið verður dýrara, kjósi fólk að nýta sér fæðubótarefni til þess að ná auknum árangri.
Heilsa Áramótaátakið verður dýrara, kjósi fólk að nýta sér fæðubótarefni til þess að ná auknum árangri. — Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson
Fram undan er mesti álagstími þeirra verslana sem selja íþróttatengdar vörur, hvort sem það er æfingabúnaður, fatnaður eða fæðubótarefni. Enda ófáir sem setja sér áramótaheit eftir hátíðarhöld desembermánaðar, setja sér markmið um breyttan lífsstíl og vilja taka sig á í heilsurækt

Björn Leví Óskarsson

blo@mbl.is

Fram undan er mesti álagstími þeirra verslana sem selja íþróttatengdar vörur, hvort sem það er æfingabúnaður, fatnaður eða fæðubótarefni. Enda ófáir sem setja sér áramótaheit eftir hátíðarhöld desembermánaðar, setja sér markmið um breyttan lífsstíl og vilja taka sig á í heilsurækt. Undanfarin misseri hafa íslenskir smásalar og neytendur þó fundið fyrir kreatínskorti, en efnið hefur allt að fjórfaldast í verði á síðastliðnum tveimur árum.

Aukin eftirspurn

Kreatín er vinsælasta fæðubótarefni í heimi og það mest rannsakaða í þokkabót. Það eykur sprengikraft í vöðvum og er einstakt að því leytinu til að það er notað í öllum íþróttum.

„Allir sem eru í einhvers konar átaki kaupa kreatín“, segir Svavar Jóhannsson, eigandi FitnessSport í samtali við Morgunblaðið. „Það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir þetta.“

Gunnar Emil Eggertsson, framkvæmdastjóri Hreysti, tekur í sama streng og segir að algjör sprengja hafi orðið í eftirspurn á efninu. Hann bendir á að með tilkomu vitundarvakningar um gagnsemi kreatíns, hafi konur byrjað að nota efnið í meira mæli en áður.

„Þú getur rétt ímyndað þér hvaða áhrif það hefur þegar markhópurinn skyndilega tvöfaldast,“ segir hann.

Fyrir faraldur jókst sala á kreatíni um liðlega 5% árlega. Í apríl 2020, snemma í kórónuveirufaraldrinum, varð hins vegar algjör sprenging í sölu á fæðubótarefninu og jókst salan á heimsvísu um tæplega helming samanborið við árið á undan. Sú mikla söluaukning hefur ekki gengið til baka síðan, og heimsmarkaðsverð fjórfaldast á sama tímabili.

Skortur og hamstur

Bæði fyrirtækin hafa þurft að þola skerðingar á sínum birgðum, vegna skorts á kreatíni. Til viðbótar við hina stórauknu eftirspurn og sölu hefur orðið framleiðslu- og flutningsbrestur frá Kína. Svavar segist nú reyna að versla meira við þýska birgja, en því fylgi þó alltaf óvissa, nokkrar vikur fram í tímann.

Gunnar segir að hans birgjar hafi tekið upp á því að skammta í smásölufyrirtækin mánaðarlega, og dregið hafi úr vöruúrvali, en til dæmis komi einingar í minni skömmtum. Hann hafi lent í því að lagerinn tæmist í nokkra daga og fyrir vikið er fólk farið að skrá sig á biðlista eftir kreatíni.

„Svo rýkur þetta út um leið og eitthvað kemur til landsins,“ bætir Gunnar við.

Aðspurður segist hann hafa orðið var við hamstur. Neytendur reyni að birgja sig aðeins upp svo þeir verði ekki uppiskroppa.

Það er ekki aðeins kreatínið sem hefur hækkað í verði, heldur hefur verð á mysupróteini nánast tvöfaldast. Hvorugur rekstrarmannanna hefur orðið var við skort á próteininu, en þeir taka eftir verðhækkunum. Sú verðhækkun nær þó aðeins til mysupróteins, en ekki til plöntupróteins, sem er dýrara fyrir.

Fæðubótarefni

Heimsmarkaðsverð á kreatíni hefur allt að fjórfaldast á nokkrum árum.

Markhópurinn tvöfaldast.

Sala hefur aukist töluvert mikið á sama tíma og framleiðsla dregst saman og leita þarf á ný mið.

Mysuprótein hefur einnig hækkað mikið í verði.

Höf.: Björn Leví Óskarsson