Ólafur Hallgrímsson
Ólafur Hallgrímsson
Frelsið er gott og bönn ekki endilega vinsæl, en stundum nauðsynleg. En frelsi fylgir líka ábyrgð.

Ólafur

Hallgrímsson

Nýafstaðinn landsfundur Sjálfstæðisflokksins vill afnema einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) á sölu áfengra drykkja og gefa hana frjálsa og samþykkti ályktun um það efni.

Mál þetta hefur virst vera ofarlega á baugi hjá flokknum nú um sinn, og hafa a.m.k. þrír ráðherrar flokksins lýst yfir stuðningi við það.

Við Íslendingar höfum búið við ríkiseinkasölu á áfengi mjög lengi, sem reynst hefur farsælt fyrirkomulag og meirihluti landsmanna verið sáttur við, enda í samræmi við aðhaldssama stefnu í áfengismálum og áherslur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), sem margoft hefur látið frá sér fara, að besta forvörnin í áfengismálum sé að takmarka aðgengi að áfengi, svo sem kostur er.

Nú vill landsfundur Sjálfstæðisflokksins og raunar ýmsir fleiri breyta þessu og fara að selja áfengi í matvörubúðum innan um brauð og mjólk, þótt allar rannsóknir sýni, að með auknu aðgengi að áfengi aukist neysla þess, ekki síst meðal ungs fólks, sem þá verður auðveldasta bráðin.

Áfengisneysla er í dag eitt stærsta heilbrigðisvandamál þjóðarinnar, það mun öllum með heilbrigða skynsemi vera ljóst.

Auk alls þess margþætta böls, sem hún hefur í för með sér fyrir einstaklinga og samfélag, kostar hún ríkið, sameiginlegan sjóð okkar allra, verulegar fjárhæðir á ári hverju vegna afleiðinga áfengisneyslu.

Nú vill landsfundur Sjálfstæðisflokksins hleypa einkageiranum í áfengisgróðann, svo peningamenn og „einkavinir“ geti makað krókinn. Verða þá sölumenn áfengis reiðubúnir að taka á sig í vaxandi mæli þann kostnað, sem af áfengisneyslu hlýst, eða á ríkissjóður að standa undir kostnaðinum, en einkageirinn að hirða gróðann?

Er þetta markmið fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins? Vill flokkurinn auka áfengisneyslu og gefa skít í lýðheilsusjónarmið?

Það er auðvitað spurningin, sem allt snýst um og landsfundarfulltrúar hefðu mátt svara, áður en þeir greiddu atkvæði.

Mönnum varð tíðrætt um frelsi á landsfundinum. Frelsið er gott og bönn ekki endilega vinsæl, en stundum nauðsynleg. En frelsi fylgir líka ábyrgð. Frelsi og ábyrgð verða að fylgjast að, annars getur frelsið snúist upp í andstæðu sína, nefnilega ófrelsi annarra. Það hlýtur að vera skylda þeirra, sem taka þátt í stjórnmálum, að sýna ábyrgð, huga að velferð allra þegna þjóðfélagsins, líka þeirra sem höllustum fæti standa, til þess eru þeir kjörnir.

Þrátt fyrir aukið frelsi á mörgum sviðum þjóðlífsins nú í dag og þjóðfélagsbreytingar, sem við erum að upplifa, efast ég um, að þjóðin vilji óábyrga stjórnmálamenn.

Sá, sem þessar línur ritar, átti þess kost sem ungur maður að sitja landsfund Sjálfstæðisflokksins í Gamla bíói veturinn 1959 og hlýða þar á tveggja tíma setningarræðu Ólafs Thors, formanns flokksins. Ólafur var sterkur leiðtogi og litríkur persónuleiki, en virkaði einnig sem góðviljaður maður, sem þekkti inn á aðstæður fólksins í landinu. Ég man ekki eftir öðru en menn töluðu af nokkurri ábyrgð á þessum fundi, og það var líka talað um „stétt með stétt“.

Fyrir hvað stendur Sjálfstæðisflokkurinn í dag, þegar frjáls sala áfengis er orðin eitt af höfuðstefnumálum hans?

Höfundur er pastor emeritus.

Höf.: Ólafur Hallgrímsson