Segja allir í kór að mjög sé snúið að spá af nokkru viti um nýliðna fortíð!

Hver dagur á sína sérstöku og eftir atvikum óvæntu atburði, hvort sem horft er nær eða fjær. Og hvað þá árið allt. Margir hafa þann sið að færa sína tilveru til bókar. Þótt enn fleiri láti sér fátt um finnast gerir hið opinbera slíkt óumbeðið. Kirkjubækur í fátæku landi eru þannig merkileg heimild. Eins eru til skjöl í ramma sem héngu í gömlum burstabæ í fámenni og voru vottorð undir kóngsins yfirskrift, Kristjáns eða Friðriks í númeraröð, um að barn hefði verið bólusett gegn kúabólu af trúverðugum manni, sem innlend yfirvöld hefðu treyst. Erindreki kóngs þurfti að vera laghentur og vel skrifandi. Merkið sýndi verkið á öxlinni það sem eftir var. Stundum taldist þetta sæta hvað mestum tíðindum það árið.

Nú, rúmri öld eftir að fyrrnefnt vottorð var gefið út, gætu flestir veggfóðrað hjá sér yfirlýsingar yfirvalda um hvað eina. Þar á meðal margfaldar bólusetningar alls almennings. Síðustu tvö árin vorum við flest bólusett margoft, og satt best að segja var heldur lítið að marka það sem okkur var sagt um fyrirbærið. Helstu yfirvöld í okkar heimshluta fullyrtu að þegar bóluefnið kæmi vegna kórónuveiru, yrðu okkur allir vegir færir. Flest okkar töldu rétt að treysta „vísindunum“. Þeir eru til sem fengu sínar þrjár sprautur og eina upp í þrjár í ábót en fengu samt veiruna og voru enn fegnir að hafa fylgt „vísindunum“.

Við höfðum heyrt að best kynni að vera að sem flestir tækju veiruna, svo hið eftirsótta „hjarðónæmi“ myndaðist, en það hefði það þann annmarka að biðin gæti orðið dýrkeypt, í orðsins fyllstu merkingu. Forseti Bandaríkjanna gekk svo langt að segja að „óbólusettir“ væru verstu óvinir eigin þjóðar. Sjálfur var hann bólusettur fjórum eða fimm sinnum og fékk veiruna tvívegis að auki. Seint yrði því um hann sagt að sá af öllum mönnum væri óvinur sinnar þjóðar, þótt ekki séu þó allir sannfærðir.

Því er ekki mótmælt að vonda veiran hafi komið í okkar heimshluta fljúgandi frá borginni Wuhan í Kína. En „vísindin“ taka því illa geri einhver því skóna að það hafi nokkuð haft með það að gera að bandarískir „vísindamenn“ áttu náið samstarf við veirustofnun í sömu borg og lögðu þangað verulega fjármuni og veittu um það upplýsingar sem voru í öfugu hlutfalli við fjármunina. Ekki skal efast um að „vísindamönnum“ hafi gengið gott eitt til og þeir séu jafnsannfærðir og þeir starfsbræður sem hafa hrætt lítil börn með heimshitaspá nú á þriðja áratug, þótt enginn sé nokkru nær.

Um áramót er litið yfir farinn veg og giskað á um leið hvort óförnu vegir framtíðarinnar séu glæstir eða minni helst á „Grindavíkurafleggjara“ síðustu daga fyrir jól. RÚV upplýsti að „við“ hefðum glatað trausti og virðingu á heimsvísu vegna framgöngu við ferðalanga, sem urðu illa úti þar og víðar, og eyðilagt ferðaiðnaðinn til margra ára. En á daginn kom að bandarískt flugfélag, Southwest Airlines, sló okkur út, og hafði aflýst 2.500 ferðum eða seinkað verulega í tilefni jólanna og ófærðar sem vélum þess hefði ella verið stefnt í. Sérstaklega var hneykslast á því að þetta flugfélag hefði fengið sérstaka meðgjöf í milljörðum dollara talið frá stjórnvöldum til að það gæti staðið af sér kórónuveiruna! Fjöldinn spurði undrandi hvort forráðamenn flugfélagsins hefðu ekki getað notað þá fjármuni, sem sóttir voru til skattgreiðenda, til að breyta löngu úreltu skipulagi sínu, svo annað eins og þetta kæmi ekki fyrir aftur. Forstjóri flugfélagsins, sem hafði ekki beðist afsökunar á einu eða neinu, paufaðist loks í pontu og sagði að nefndur „fjárstuðningur ríkisins“ hefði nýst til að halda flugmönnum og öðrum starfsmönnum á launum í tvö ár þótt lítið sem ekkert væri flogið til að auðvelda félaginu að lifa af! En félagið hefði nú lært af biturri reynslu og myndi sjá til þess að annað eins og þetta myndi ekki gerast aftur!

Minnti hann óneitanlega á ónefndan borgarstjóra, sem hélt sig í þúsunda kílómetra fjarlægð, þegar borgarbúar kenndu aumingjadómsins þegar ófærð kaffærði borgina, sem hafði nú „aðeins tvær traktorgröfur tiltækar“ sem dygðu lítt í íslensku vetrarveðri.

Þeir eru sjaldan góðir í að spá um næstu framtíð sem margítreka sem afsökun að það sé mjög erfitt að spá um nýliðna fortíð.