Staða íslenskrar tungu er sú að allir innlendir höfundar skrifa á íslensku og í hóp þeirra bætast ört skáld af öðrum uppruna. Við eigum ljóðlist sem leyfir slíkan liðsauka. Við eigum líka unga höfunda sem gera sér grein fyrir ævintýrinu sem…

Staða íslenskrar tungu er sú að allir innlendir höfundar skrifa á íslensku og í hóp þeirra bætast ört skáld af öðrum uppruna. Við eigum ljóðlist sem leyfir slíkan liðsauka. Við eigum líka unga höfunda sem gera sér grein fyrir ævintýrinu sem fámennistunga er, svo sem Jónas Reyni Gunnarsson sem fagnar þeim sem helga sig skrifum á máli ‚sem er nánast ekki til‘ og Maríu Elísabetu Bragadóttur sem kveðst skrifa ‚á leynitungumáli‘.

Stöðu íslenskrar tungu má líka taka erlendis; þúsundir barna alast upp á heimilum þar sem íslenska er töluð af öðru eða báðum foreldrum og gleymist furðu oft að telja með.

Staða íslenskrar tungu er tæknileg áskorun, máltæknin er ótrúleg og frábær. Himneskar hersveitir þýðenda mega samt ekki gleymast því gervigreind ein gæti flatt oss út.

Staða íslenskrar tungu er bág við margt afgreiðsluborðið, eins og neytendur þreytast ekki á barma sér yfir. Ég eyddi haustinu í Svíþjóð og þar var ég ævinlega afgreidd á sænsku. Sú sænska var með margvíslegum hreim en alltaf sænska sem sameinaði.

Tungumál er manninum kannski meðfætt, kannski lært, en það er furðu fullkomið kerfi, viðkvæmt, sterkt og ótrúlega sveigjanlegt. Krafturinn býr í því að sérhvert mál getur þróast án þess að farast. Fyrst eigendur ensku hafa verið uggandi yfir meintri hnignun hennar í fleiri hundruð ár hlýtur okkur, hinum fáu, að fyrirgefast stundleg óró. Einn daginn eru það slettur, annan daginn latmæli – og jesús pétur, hvað með viðtengingarháttinn?! Aðhald er gott, en aldrei verður synt algjörlega á móti straumnum því allir sem tala málið eru eigendur þess.

Fámenni kallar á aukna vakt; kennslu, styrk og auðvitað lestur, sem gefur aðgang að gríðarlegum forða íslenskunnar og tengir okkur við það sem hingað til hefur verið hugsað. Mál er aldrei á safni, það er ekki lifandi nema það sé notað og ekki verðmætt nema það sé lifandi.

Staða íslensku, eins og annarra mála, er að hún lagar sig að þörfum einstaklinga og að hreyfingum á stórum skala. Tungan er til fyrir okkur og við ráðum hvort hún gerir okkur gagn. Kannski verðum við einn daginn formlega margtyngt þjóðfélag, kannski erum við þegar hætt að vera eintyngd, en íslenskan hefur hingað til náð að aðlagast, og lýsa, stórkostlegum samfélagsbreytingum. Því er engin ástæða til að vantreysta henni núna.

Það fyndnasta er að öll skoðanaskipti um málið fara fram á málinu sjálfu og á meðan við tölum um allt í lífinu, þ.m.t. málið, með glænýjum og þúsund ára gömlum orðum í sömu andrá, erum við, eins og eigendur framtíðar segja, bara fáránlega góð.