Embætti ráðuneytisstjóra í menningar- og viðskiptaráðuneytinu hefur verið auglýst laust til umsóknar. Ráðuneytið tók til starfa 1. febrúar 2022 eftir breytingar á verkaskiptingu Stjórnarráðs Íslands í árslok 2021.
Núverandi ráðuneytisstjóri, Skúli Eggert Þórðarson, verður sjötugur hinn 17. febrúar á næsta ári og mun láta af störfum fyrir aldurs sakir. Skúli Eggert hefur á sínum starfsferli gegnt veigamiklum embættum hér á landi, verið skattrannsóknastjóri, ríkisskattstjóri og ríkisendurskoðandi.
Ráðuneytið starfar í fjórum skrifstofum, skrifstofu viðskipta og ferðamála, skrifstofu menningar og fjölmiðla, skrifstofu verðmætasköpunar og skrifstofu fjármála og gæðamála. Starfsfólk ráðuneytisins er rösklega 40 manna hópur. Fram undan er stefnumótun á málefnasviðum ráðuneytisins með starfsfólki þess, að því er fram kemur í auglýsingunni. Undir ráðuneytið heyrir fjöldi stofnana og eininga.
Umsóknarfrestur er til og með 23. janúar 2023. Menningar- og viðskiptaráðherra skipar í embættið til fimm ára frá og með 1. mars 2023. sisi@mbl.is