Tröllasmiður Hann er eitt stærsta skordýr á Íslandi. Dýrið á myndinni var 21 millimetri. Tegundin finnst einungis í Sveitarfélaginu Hornafirði.
Tröllasmiður Hann er eitt stærsta skordýr á Íslandi. Dýrið á myndinni var 21 millimetri. Tegundin finnst einungis í Sveitarfélaginu Hornafirði. — Ljósmynd/Erling Ólafsson
Tröllasmiður, eitt stærsta skordýr á Íslandi, er útbreiddari en áður var talið. Náttúrustofa Suðausturlands hefur gefið út skýrslu, Útbreiðsla tröllasmiðs í Sveitarfélaginu Hornafirði 2022, eftir Hólmfríði Jakobsdóttur, Kristínu Hermannsdóttur og…

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Tröllasmiður, eitt stærsta skordýr á Íslandi, er útbreiddari en áður var talið. Náttúrustofa Suðausturlands hefur gefið út skýrslu, Útbreiðsla tröllasmiðs í Sveitarfélaginu Hornafirði 2022, eftir Hólmfríði Jakobsdóttur, Kristínu Hermannsdóttur og Lilju Jóhannesdóttur sem er forstöðumaður Náttúrustofunnar. Þar kemur m.a. fram að svo virðist sem tröllasmiðurinn sé að færa sig austar á bóginn. Tröllasmiður finnst aðeins í Sveitarfélaginu Hornafirði á svæðinu frá Hoffelli í Nesjum og austur fyrir Almannaskarð.

„Við fengum einn tröllasmið í gildru í Lóni, rétt austan við Almannaskarð, þannig að hann er þar. Fram að þessu hafði ekki fengist tröllasmiður í Lóni þannig að það virðist sem hann sé að auka útbreiðslu sína,“ segir Lilja Jóhannesdóttir, forstöðumaður Náttúrustofu Suðausturlands. Einnig hefur sést til tröllasmiða, t.d. við Slaufrudal og bæinn Syðri-Fjörð, samkvæmt tilkynningum heimamanna. Þá fann Náttúrufræðistofnun Íslands tröllasmið úti á Horni í Nesjum 1997 og er það austasti fundarstaður dýrsins.

Ætla má að stóru jökulfljótin takmarki útbreiðslusvæði tröllasmiðsins. Lilja bendir á að þrátt fyrir þau geti skordýrið fært sig enn austar á bóginn. „Það væri gaman að setja upp fallgildrur enn lengra í austur,“ segir Lilja.

Frekari rannsóknir á tröllasmiði hafa ekki verið ákveðnar, að sögn Lilju. Til þess þyrfti að fá fjármagn og finna starfsfólk til að sinna verkefninu. Hún segir að það sé snúið að fá starfsfólk til Hafnar vegna þess hve lítið húsnæði er í boði. „Þetta er klárlega nokkuð sem okkur langar að gera, en það er ekki alveg í kortunum,“ segir Lilja.

Tröllasmiðir eru fremur fáséðir og virðast vera staðbundnir. Lilja segir að tegundin hafi ekki verið mikið rannsökuð og til dæmis er ekki almennilega vitað hver lífsferill tröllasmiðsins er á Íslandi né heldur hver viðkoman er. Fram kemur í skýrslunni að lífsferill tröllasmiðs sé breytilegur eftir svæðum erlendis. Líklegt er talið að hitastig hafi áhrif á lífsferil dýrsins en rannsóknir í Englandi sýndu að dýr sem lifðu í 100 metra hæð yfir sjávarmáli í Englandi höfðu aðallega einæran lífsferil en bjöllur sem lifðu yfir 250 metra hæð yfir sjávarmáli höfðu aðallega tvíæran lífsferil. Auk þess urpu kvendýr á láglendi fleiri eggjum en þau sem lifðu hærra yfir sjávarmáli.

Í skýrslunni segir að æskilegt væri að fara í umfangsmeiri rannsókn á þéttleika og útbreiðslu tröllasmiðs. Gott væri að nota gildrur sem eru þannig útbúnar að þær sé hægt að hafa opnar yfir allt rannsóknartímabilið, m.a. í rigningu. Einnig væri fróðlegt að leggja gildrur austar en útbreiðslusvæði tröllasmiðs nær. Niðurstöður þessarar rannsóknar og tilkynningar frá heimamönnum bendi til þess að tegundin sé að teygja sig lengra austur.

Tröllasmiðurinn er bjalla af járnsmiðsætt og er einnig kallaður tordýflamóðir en tordýfill er annað heiti á járnsmiði. Hann finnst í graslendi, mólendi og skóglendi víða á meginlandi Evrópu, Bretlandi, Írlandi, Færeyjum og Íslandi. Útbreiðslusvæðið nær austur að Karpatafjöllum, suður til Spánar og norður til Norður-Noregs og Kólaskaga. Tegundin hefur líklega átt heima hér á landi frá því löngu fyrir landnám og jafnvel frá því fyrir lok síðustu ísaldar. Íslenski tröllasmiðurinn er undirtegund sem er nokkuð frábrugðin tröllasmiðum í Noregi, Skotlandi og Færeyjum. Undirtegundin finnst því hvergi annars staðar í heiminum.

Höf.: Guðni Einarsson