Nýársdagur Hvað boðar nýárs blessuð sól?
Nýársdagur Hvað boðar nýárs blessuð sól? — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Morgundagurinn, nýársdagur, er merkisdagur og helgidagur í senn, sem fyrsti dagur janúar og nýs árs, í okkar tímatali, og jafnframt sem hinn áttundi dagur jóla. Í íslensku alfræðihandriti um rímfræði (tímatal) segir að janúar komi átta dag jóla

Tungutak

Ari Páll Kristinsson

ari.pall.kristinsson@arnastofnun.is

Morgundagurinn, nýársdagur, er merkisdagur og helgidagur í senn, sem fyrsti dagur janúar og nýs árs, í okkar tímatali, og jafnframt sem hinn áttundi dagur jóla. Í íslensku alfræðihandriti um rímfræði (tímatal) segir að janúar komi átta dag jóla. Í fornritum er einnig nefndur átti aftann jóla og átta kveld jóla. Í Ólafs sögu helga segir frá því er „Ólafur konungur hafði jólaboð mikið og var þá komið til hans stórmenni margt“; sótti Ólafur í hirslur sínar „dýrgripi til þess að gefa vingjafar hið átta kveld jóla“.

Form raðtölunnar varð seinna áttundi (einnig þekktist áttandi), í samræmi við sjöundi, níundi.

Raðtalan átti beygðist líkt og fimmti, sjötti; þ.e. átti dagur, um átta dag o.s.frv. Í Gísla sögu Súrssonar er lýst aðför Eyjólfs og förunauta hans og „lætur Gísli þar líf sitt með mikilli hreysti og drengskap“ en þeir Eyjólfsmenn „voru allir sárir er eftir lifðu og mjög þreyttir“. „Fara þeir Eyjólfur nú heim í Otradal og andast hina sömu nótt hinn sjöundi maður af sárum en hinn átti maður liggur í sárum tólf mánuði og bíður þá bana.“

Töluorðið átta í norrænu má rekja til indóevrópsku og samsvarar það, auk frænkna sinna í öðrum germönskum málum (sbr. ensku, þýsku, gotnesku: eight, acht, ahtau), m.a. astau í sanskrít, ocht í írsku, aštuoni í litáísku, osiem í pólsku o.fl. Ekki skal gleyma latínunni, octo, sem færði okkur októ- í mánaðarheitinu. Taldist október áttundi (átti) mánuður ársins þar sem mars var um skeið hinn fyrsti að tímatali Rómverja. Nóvember var hinn níundi og í dag, gamlársdag, kveðjum við desember, hinn tíunda; heiti hans er sem sé dregið af latneska töluorðinu decem (tíu).

Ásgeir Bl. Magnússon segir í Íslenskri orðsifjabók (sjá málið.is) frá þeirri getgátu um uppruna töluorðsins átta að myndir þess í gotnesku og sanskrít gætu bent til tvítöluendingar og því hafi verið giskað á „að það ætti í öndverðu við framrétta fingur beggja handa að þumalfingrum undanskildum“.

Þessi jólin ber aðfangadag, jóladag, gamlársdag og nýársdag upp á venjulegar helgar, og frídagar almennings fyrir vikið færri en ella að þessu sinni. Í kaþólskri tíð var mismikil helgi um jól þar sem jóladagur, átti dagur jóla (nýársdagur) og þrettándinn voru í sérflokki, en annar, þriðji og fjórði í jólum höfðu stöðu drottinsdags (sunnudags). Í Kristinna laga þætti Grágásar segir: „Jólahelgi eigum vér að halda á landi hér. Það eru dagar þrettán. Þar skal halda jóladag hinn fyrsta og hinn átta (áttunda) og hinn þrettánda sem páskadag hinn fyrsta; og annan dag jóla og hinn þriðja og hinn fjórða, þá skal halda sem drottinsdag að öllu annars nema að því þá er rétt að moka undan fé sínu.“ Í Sögu daganna segir Árni Björnsson frá því að við siðaskipti hafi fjórði helgidagurinn verið tekinn af jólum, og þriðji helgidagurinn árið 1770.