Gunnar Björnsson
Gunnar Björnsson
Gunnar Björnsson: "Þegar við eigum Guð að, þá vitum við, að hann er að baki hvors tveggja, hamingjunnar og mótlætisins."

Í Prédikaranum standa skrifuð þessi heilögu orð:

„Það sem hefur verið, það mun verða, og það sem gjörst hefur, það mun gjörast, og ekkert er nýtt undir sólunni.“

Er ekki allt nýtt undir sólunni? Það mætti segja það, og snúa þannig við hinum einkennilegu ummælum hins forna Prédikara. Og væri það satt, þá væru hinar eðlilegu hugsanir á nýárinu þankar um framtíðina, samsettir annars vegar úr vangaveltum, hins vegar úr ímyndunum; hugsanir milli vonar og ótta; heilabrot, sem snúast um ýmis áform og góðar fyrirætlanir. Ef það væri hinn æðsti sannleikur, að allt flýtur, þá hlyti brýnasta spurning okkar um áramót að vera þessi: Hvað skyldi koma fljótandi til mín með nýju ári? Hvað skyldi ókomna árið færa mér nýtt? Eflaust væru þá slíkar bollaleggingar áleitnastar. Þessi hugmynd um að allt fljóti, og allt sé í heiminum hverfult, hún er svo sjálfsögð og eðlileg, eins fyrir því þótt við höfum aldrei gert okkur þess fyllilega grein; en við höfum að minnsta kosti öll fengið að reyna það, hversu allt í umhverfi okkar er breytingum undirorpið, hversu hið nýja, bæði gott og illt, verður óaflátanlega upp á teningnum í lífi okkar, og hversu við tökum um leið breytingum sjálf, hversu við verðum stöðugt að mæta einhverju nýju, og hvernig við sjálf verðum smám saman að öðrum manneskjum en við vorum áður. Það þarf enga heimspeki til þess að skilja þetta. Við sjáum það svo greinilega í fari okkar sjálfra og allra annarra, óðara en við tökum að gefa því gaum. Og af sjálfu leiðir, að við hljótum að ganga til móts við hið nýja og óþekkta full óvissu.

En þegar við eigum Guð að göngum við hughraust og róleg til móts við hið góða, sem við öll eigum örugglega í vændum á nýju ári. Við stefnum á vit þess með tilhlökkun. Við væntum þess ekki með því angurværa tómlæti, sem áður einblíndi á forgengileikann. Auðvitað er einnig það forgengilegt. Það, eins og allt annað hér í heimi, á sér upphaf og endi. En við aftur á móti, sem þekkjum hinn eilífa Guð, sjáum í forgengilegum gæðum gjöf Hans, og þess vegna hlökkum við til þess að hljóta hana. Og gjafarinn gleður okkur enn þá meira en gjöfin. Það er af því að hún kemur frá Honum, sem hún er góð og mun verða okkur til góðs. Og við eigum ekki að láta þar við sitja að njóta hennar, ekki gleyma okkur í hinum tímanlega fögnuði, sem hún færir, heldur minnast eilífðarinnar, því að öll tímanleg gæði eru aðeins sem forsmekkur hennar.

Þegar við eigum Guð að höldum við líka með ró á vit alls þess, sem við myndum hræðast, ef Hans nyti ekki við. Með ró, segi ég, en ekki með kæringarlausu tómlæti. Tómlætið er óhollt hugarástand. Þá höfum við komist að þeirri niðurstöðu, að erfiðleikar lífsins séu til þess eins að yppta öxlum yfir, nokkuð, sem verði svona að vera og hljóti brátt að taka enda. Fólk, sem tekur mótlætinu þannig, er ekki öfundsvert. Það fer á mis við blessun, á sama hátt og þeir, sem vanmeta gleðina, sem góður Guð vill veita þeim, þegar Hann lætur hina forgengilegu hamingju falla þeim í skaut. Þegar við eigum Guð að, þá vitum við, að hann er að baki hvors tveggja, hamingjunnar og mótlætisins. Við megum ganga mót þessu hvoru tveggja, án þess að láta það koma okkur úr jafnvægi. Hvort tveggja þetta er aðeins mismunandi máti, sem hann viðhefur til þess að tala til okkar og bíða okkar. Hann er sannarlega óumbreytanlegur og ávallt sjálfum sér samkvæmur og því varir trúfesti Hans að eilífu. Það gerist ekkert nýtt undir sólunni! Á bak við hin margvíslegu gervi sársaukans, sem við þurfum að bera, er blessandi, læknandi föðurhönd Hans að verki. Hugsum því ávallt aðeins um hið óbreytanlega eðli Hans, sem öllu stjórnar og ræður, – Jesú Krists, sem er í gær og í dag hinn sami og um allan aldur.

Gleðilegt nýár!

Höfundur er pastor emeritus.

Höf.: Gunnar Björnsson